Lestaslys í aðgöngum við Kárahnjúkavirkjun

Járnbrautarlest í jarðgöngunum við Kárahnjúka.
Járnbrautarlest í jarðgöngunum við Kárahnjúka. mbl.is/Steinunn

Tveir farþegar slösuðust þegar tvær lestir skullu saman í aðgöngum tvö við Kárahnjúkavirkjun klukkan 10.30 í morgun, að sögn Ómars R. Valdimarssonar, talsmanns verktakafyrirtækisins Impregilo. Ekki er vitað nákvæmlega hversu mikil meiðsl þeirra eru, en þau munu þó ekki vera alvarleg. Mennirnir voru fyrst fluttir til Egilsstaða og var þar ákveðið að fara með þá með sjúkraflugi til Akureyrar til nánari skoðunar.

Um borð í annarri lestinni voru þrír farþegar auk lestarstjórans, en lestarstjórinn í hinni var einn á ferð. Hvorugur þeirra slasaðist. Lestarnar voru á um 20 km hraða er þær skullu saman.

mbl.is