Vilhjálmur kjörinn borgarstjóri og Hanna Birna kjörin forseti borgarstjórnar

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var kjörinn borgarstjóri á fyrsta fundi borgarstjórnar …
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var kjörinn borgarstjóri á fyrsta fundi borgarstjórnar á kjörtímabilinu.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var kjörin forseti borgarstjórnar Reykjavíkur í upphafi borgarstjórnarfundar sem nú stendur yfir en það er fyrsti fundur á nýju kjörtímabili. Hanna Birna fékk 8 atkvæði en sjö atkvæðaseðlar voru auðir. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, var kjörinn borgarstjóri án atkvæðagreiðslu.

Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks var kjörinn 1. varaforseti borgarstjórnar með 8 atkvæðum en sjö seðlar voru auðir. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, var kjörinn 2. varaforseti með 8 atkvæðum, auðir seðlar voru sex og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fékk 1 atkvæði.

Vilhjálmur sagði á fundinum, að hann myndi leggja áherslu á að eiga gott samstarf við alla borgarfulltrúa og borgarstarfsmenn. „Ég ætla mér að verða borgarstjóri allra Reykvíkinga og þjóna borgarbúum á skilvirkan hátt með kurteisi og tillitssemi að leiðarljósi," sagði Vilhjálmur.

Hann sagðist ætla að heimsækja fyrirtæki og stofnanir, halda fundi og sinna beiðnum um viðtöl eins og tími hans framast leyfir. Hann sagðist hafa sem borgarfulltrúi lagt mikla áherslu á að sinna erindum einstaklinga og því ætlaði hann að halda áfram og leiðbeina og aðstoða einstaklinga við að koma erindum sínum gegnum það mikla völundarhús sem stjórnkerfi borgarkerfið væri.

Þá þakkaði Vilhjálmur Seinunni Valdísi Óskarsdóttur, fráfarandi borgarstjóra fyrir hönd borgarbúa fyrir vel unnin störf í þágu borgarinnar. Sagði Vilhjálmur að þau Steinunn Valdís hefðu unnið lengi saman og þótt þau hefðu ekki alltaf verið sammála hafi samstarfið við hana verið á heiðarlegum grunni byggt.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-lista, lét bóka á fundinum, að stjórnarandstaðan í borgarstjórn, sem í raun hefði meirihluta kjósenda á bak við sig, hljóti að veita nýkjörnum borgarstjóra öflugt aðhald.

Í borgarráð voru kjörin Björn Ingi Hrafnsson frá Framsóknarflokki, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Kjartan Magnússon, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Dagur B. Eggertsson og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarfulltrúar Samfylkingarinnar og Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs. Varamenn voru kjörin Óskar Bergsson, Framsóknarflokki, Júlíus Vífill Ingvarsson, Jórunn Frímannsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Stefán Jón Hafstein og Björk Vilhjálmsdóttir, Samfylkingu og Svandís Svavarsdóttir, VG.

Óskar Bergsson var kjörinn formaður framkvæmdaráðs og Björn Ingi Hrafnsson var kjörinn formaður íþrótta- og tómstundaráðs. Kjartan Magnússon var kjörinn formaður menningar- og ferðamálaráðs, Júlíus Vífill Ingvarsson var kjörinn formaður menntaráðs, Hanna Birna Kristjánsdóttir var kjörin formaður skipulagsráðs, Gísli Marteinn Baldursson var kjörinn formaður umhverfisráðs, Jórunn Frímannsdóttir var kjörin formaður velferðarráðs.

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, sagði um atkvæðagreiðsluna, að þegar lokið hefði verið við að kjósa í átta helstu ráð borgarstjórnar gæti hann ekki orða bundist yfir því að þótt jafnréttisnefnd Reykjavíkur hefði sent tilmæli til flokkanna, sem buðu fram til borgarstjórnar, þá væri niðurstaðan sú, að af hálfu meirihlutans væru tvær nefndir aðeins skipaðar körlum, í fjórum nefndum væri aðeins ein kona frá meirihlutanum og í tveimur væru fjórum konum teflt fram. Þá gegndu aðeins tvær konur formennsku í þessum átta nefndum.

Hanna Birna Kristjánsdóttir var kjörin forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir var kjörin forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert