Fjölluðu um hugsanlega annmarka á Baugsmálinu

eftir Brján Jónasson

brjann@mbl.is

FJALLAÐ var um mögulega annmarka á fyrsta ákæruliðnum af nítján í þeim hluta Baugsmálsins sem nú er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í réttarsal í gær. Þá fékk sækjandi í málinu tækifæri til að fjalla um ábendingu dómara um mögulega annmarka, sem gætu leitt til þess að þeim ákærulið verði vísað frá dómi.

Um er að ræða ákærulið í endurákæru í málinu sem gefin var út eftir að 32 af upprunalegum ákæruliðum var vísað frá af Hæstarétti. Í þessum ákærulið er Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, ákærður fyrir fjársvik í tengslum við kaup Baugs á Vöruveltunni, félagi sem átti og rak 10-11 verslunarkeðjuna.

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari í málinu, sagði þennan ákærulið í fullkomnu samræmi við kröfur sem gerðar séu til ákæru, og taldi fráleitt að eitthvað sem þar komi fram, eða komi ekki fram, eigi að leiða til þess að dómari vísi ákæruliðnum frá dómi, eins og hann hefur heimild til.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, sagðist á öndverðri skoðun, ákæruliðurinn væri svo ruglingslegur að hann skildi hann ekki sjálfur, auk þess sem í honum séu staðreyndavillur. Ekki verði heldur betur séð en hluti ákæruliðarins sé lögfræðileg greinargerð sækjanda, sem ekkert erindi eigi inn í ákæru.

Ákæruliðurinn er með þeim lengri, en hann er um fjórar síður í 20 síðu ákæru. Hinir ákæruliðirnir 18 eru því tæplega 16 síður, eða innan við ein blaðsíða á hvern ákærulið. Sigurður Tómas sagði þessa lengd koma til vegna þess að brotið sé flókið, og gerð sé krafa um að verknaðarlýsing í ákæru lýsi brotinu nægilega vel.

Verjandi Jóns Ásgeirs hafi ekki gert neina athugasemd við framsetningu þessa ákæruliðs þegar hann krafðist frávísunar á málinu, heldur byggi hann frávísunarkröfu sína á öðrum atriðum. Auk þess hafi Jón Ásgeir rætt ákæruefnið í fjölmiðlum, svo ekki verði betur séð en hann átti sig ágætlega á ákærunni.

Í dómi Hæstaréttar þar sem hann vísaði frá 32 af 40 upprunalegum ákæruliðum í málinu kemur m.a. fram að ákærur verði að vera svo skýrar að bæði ákærði og dómari geti gert sér grein fyrir því hvert meint brot sé, og við hvaða lög það varði. Sigurður Tómas benti á að ekki sé þar með sagt að sýna verði fram á sekt í ákæru, það bíði þar til málið verði flutt fyrir dómi. Byggja verði á fullyrðingum ákæruvaldsins á þessu stigi, því annað heyri til sönnunarfærslu sem eigi ekki heima í ákæru.

Annmarkar verði að vera augljósir

Sigurður Tómas benti á að til að dómari hafi heimild til að vísa máli frá dómi þurfi að vera bersýnilegir annmarkar á því, og því ljóst að þessari heimild verði að beita í miklu hófi, annmarkarnir verði að vera augljósir. Dómari verði að meta hvort um sé að ræða ónákvæmni, hvort hún sé í aðalatriðum eða aukaatriðum, og hvort ákæruvaldið geti mögulega bætt úr við umfjöllun um málið fyrir dómi. Í raun geti dómari ekki vísað ákæruliðnum frá nema hann sé þess fullviss að ekkert í skjölum málsins, sem séu ekki undir 25 þúsund blaðsíðum, geti bætt úr þeim annmörkum sem hann telji á ákæruliðnum.

Í dómum Hæstaréttar sem gefið geta fordæmi í þessu máli sagði Sigurður Tómas að yfirleitt ráði úrslitum hvort ágallar á ákæru hafi áhrif á vörn ákærða. Svo sé þó greinilega ekki í þessu tilviki, ákærða sé vel ljóst hvað hann sé ákærður fyrir og eigi á engan hátt að velkjast í vafa um það hvar hann þurfi að grípa til varna.

Sigurður Tómas benti að endingu á að ef þessum ákærulið verði vísað frá dómi nú þýði það líklega að þau atriði sem þar komi fram komi aldrei til efnismeðferðar, enda hafi þeim þegar verið vísað frá einu sinni.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, fékk einn verjenda tækifæri til að tjá sig um þessa mögulegu annmarka, enda er Jón Ásgeir einn ákærður í þessum ákærulið. Gestur sagði að flestum þeim atriðum sem koma eigi fram í ákæru séu gerð ágæt skil í þessum ákærulið. Nafni ákærða, hvert meint brot sé, hvenær talið er að það sé framið og fleira í þeim dúr.

Verknaðarlýsingu ábótavant

Þegar kemur að lýsingu hins meinta glæps, verknaðarlýsingunni, sagði Gestur hins vegar þessum ákærulið verulega ábótavant. Lýsingin sé ótrúlega flókin, og sett fram með mótsagnakenndum hætti, ómögulegt sé að greina á milli þess sem sé ákæruefnið sjálft, og annarra atriða sem sennilega séu það ekki.

Ástæður þessa sagði Gestur þá að sett sé inn nokkurs konar millifyrirsögn eftir það sem virðist eiga að vera verknaðarlýsing, og eftir þá millifyrirsögn komi það sem kalla verði lögfræðilega greinargerð, eða rökstuðning sækjanda, sem eigi alls ekki heima í ákæru. Óljóst sé með öllu hvort þeir atburðir sem þar er lýst séu meðal þess sem Jón Ásgeir sé ákærður fyrir eða ekki, en sumt af því sem þar er lýst hafi verið ákært fyrir í fyrstu ákærunum sem gefnar voru út, en annað ekki.

Aldrei má vera vafi í ákæru hvaða atriði er ákært fyrir, sagði Gestur. Upptalning atburða sem geri saknæmt athæfi mögulegt sé ekkert annað en lögfræðileg greinargerð, og sú upptalning sé andstæð þeirri skyldu ákæruvaldsins að setja fram skýra ákæru.

Óskiljanlegur ákæruliður

Gestur lagði fram lista yfir atriði sem umbjóðandi sinn telji röng í ákærunni, eða ekki fjallað nægilega ýtarlega um. T.d. komi þar fram að Jón Ásgeir hafi keypt hlut í Vöruveltunni, en ekki komi fram það sem segir í kaupsamningi, að Jón Ásgeir hafi keypt hlutinn fyrir hönd annars ótilgreinds aðila. Einnig sé sagt að Jón Ásgeir hafi endurgreitt tiltekna upphæð, en fram komi í skjölum málsins að það hafi verið allt annar maður sem innti þá greiðslu af hendi.

Svo sé Jón Ásgeir sagður hafa haft af því kostnað að leyna kaupum sínum á Vöruveltunni fyrir Baugi, fjölmiðlum og fleirum, en ekki reynt að tilgreina hver sá kostnaður hafi verið nákvæmlega. Tölur séu oft fundnar út með því að bera saman óskyld atriði, epli og appelsínur.

Allt þetta sagði Gestur gera ákæruliðinn óskýran fyrir allt venjulegt fólk, og sagðist sjálfur ekki skilja hann þrátt fyrir margar tilraunir, og það sama eigi við um aðra sem hann hafi beðið um að lesa þennan ákærulið. Í ákæru eigi ekkert að vera sem ekki þurfi að vera þar samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, en eftir því sé einfaldlega ekki farið í þessu tilviki.

Segir málatilbúnað mótsagnakenndan

Sigurður Tómas sagði þennan málatilbúnað Gests mótsagnarkenndan. Annars vegar segi hann allt of miklar upplýsingar í ákæruliðnum, en hins vegar kalli hann eftir ýtarlegri upplýsingum um ákveðin atvik. Hann mótmælti því að staðreyndavillur séu í ákæruliðnum, og sagðist raunar ekki hafa átt von á því að verjandi ákærða væri sér sammála um ákæruatriðin, um það verði tekist á við aðalmeðferð í málinu.

Sigurður Tómas mótmælti því einnig að einhvers konar lögfræðilega greinargerð væri að finna í ákæruliðnum. Þar séu einfaldlega taldar upp staðreyndir með hlutlausum hætti. Ljóst sé að ágreiningur verði um þessar staðreyndir, en með þessari ýtarlegu umfjöllun sé verið að bregðast við gagnrýni í dómi Hæstaréttar þegar fyrri ákærum var vísað frá að hluta.

Gestur ítrekaði að lokum þá skoðun sína að lögfræðilega greinargerð væri að finna í ákæruliðnum, þar sé í raun um sönnunarfærslu að ræða. Því eigi að vísa þessum ákærulið frá dómi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert