Kirkjan skaðabótaskyld vegna skipunar í embætti sendiráðsprests

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslenska þjóðkirkjan sé skaðabótaskyld gagnvart umsækjanda um embætti sendiráðsprests í Lundúnum, sem veitt var árið 2003. Taldi Hæstiréttur, að kirkjan hafi brotið jafnréttislög þegar skipað var í embættið.

Forsaga málsins er að embætti sendiráðsprests í Lundúnum var auglýst í júní árið 2003 en embættið er samstarfsverkefni þjóðkirkjunnar, utanríkisráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins. Skipuð var sérstök hæfisnefnd með fulltrúum fyrrnefndra aðila og var tekið fram að álit hennar væri bindandi.

Hæfisnefndin mælti með því að Sigurður Arnarson sem er tengdasonur biskups Íslands, yrði skipaður til að gegna embættinu og var það gert en vígslubiskupinn í Skálholti skipaði í embættið þar sem biskup Íslands vék sæti í málinu. Sigríður Guðmarsdóttir, sem hafði einnig sótt um embættið, krafðist viðurkenningar á því að þjóðkirkjan væri skaðabótaskyld vegna skipunarinnar.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri talið neitt því til fyrirstöðu að biskup hefði í samráði við þá sem tilnefndu fulltrúa í hæfisnefndina mátt ákveða að niðurstaða hennar yrði bindandi, enda hafi hann haldið formlegu skipunarvaldi sínu og borið áfram ábyrgð á því að skipun í embættið væri lögmæt. Þá féllst Hæstiréttur ekki á að brotið hefði verið gegn vanhæfisreglum stjórnsýsluréttar með afskiptum biskups af skipuninni eða að fulltrúi utanríkisráðuneytisins hefði verið vanhæfur til setu í nefndinni. Þá var ekki talið að formgalli hefði verið á málsmeðferð nefndarinnar þar sem einn nefndarmanna hefði setið hjá við afgreiðslu málsins eða að brotið hefði verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þar sem ákvörðun hefði verið tekin án þess að tiltekin meðmæli hefðu borist nefndinni.

Hæstiréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að nefndin hefði ekki gætt málefnalegra sjónarmiða við mat á starfsreynslu og framhaldsmenntun umsækjenda. Var talið að Sigríður Guðmarsdóttir hefði sýnt fram á að starfsreynsla hennar og menntun hefðu nýst henni þannig að hún hafi verið Sigurði Arnarsyni jafnhæf eða hæfari til að gegna umræddu embætti.

Hæstiréttur segir, að fram hafi verið komið, að engin kona gegndi prestsembætti erlendis og hafi íslenska þjóðkirkjan ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa Sigurð í embættið. Taldi rétturinn því, talið að brotið hefði verið gegn lögum jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna með skipuninni.

Féllst Hæstiréttur því á kröfu Sigríðar um að viðurkenna bótaskyldu kirkjunnar þar sem leiddar hefðu verið nægilegar líkur að því að Sigríður hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem íslenska þjóðkirkjan bæri ábyrgð á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert