Vsk. af áfengi í 7% en áfengisgjald hækkar

Virðisaukaskattur á áfengi lækkar en áfengisgjald hækkar á móti.
Virðisaukaskattur á áfengi lækkar en áfengisgjald hækkar á móti. mbl.is/Billi
Eftir Ómar Friðriksson omfr@mbl.is
Virðisaukaskattur af áfengi verður lækkaður niður í 7% skattþrep 1. mars nk. samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra um lækkun virðisaukaskatts af matvælum o.fl. Á móti verður áfengisgjaldið hækkað frá sama tíma þar sem markmið breytinganna er ekki að lækka almennt áfengisverð til neytenda. Á hún því ekki að leiða til þess að tekjur ríkisins af sölu áfengis minnki, skv. upplýsingum Árna Mathiesen fjármálaráðherra.

Það er hins vegar ljóst að þessar breytingar munu hafa í för með sér að einhverjar breytingar verða á smásöluverði víntegunda í hverjum styrkleikaflokki áfengis fyrir sig.

Ódýrari vín hækka og dýrari vín sömu tegundar lækka

Þar sem áfengisgjaldið er miðað við magn vínandans en ekki innkaupsverð, mun breytt álagning hafa þau áhrif að dýrari vín lækka í verði en ódýrari vín af sömu tegund munu hækka í verði. Fjármálaráðherra segist ekki gera ráð fyrir að þessar verðbreytingar verði stórvægilegar.

"Álagningin sem er óháð verðinu hækkar en álagningin sem er háð verðinu lækkar. Áfengi sem er þá dýrara lækkar en það sem er ódýrara hækkar innan sömu áfengistegundarinnar," segir Árni.

Breytingin er gerð til að einfalda og samræma álagningu virðisaukaskatts á vörur og þjónustu hjá hótelum og veitingahúsum.

Fram kemur í tillögum meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp næsta árs að hækkun áfengisgjaldsins er áætluð 3,8 milljarðar kr.

Einnig er í frumvarpinu lagt til að virðisaukaskattur af tónlistargeisladiskum verði lækkaður í 7%.

Í hnotskurn
» Virðisaukaskattur af áfengi á að lækka í 7% þrep 1. mars. Á móti verður áfengisgjald hækkað og á að skila 3,8 milljörðum.
» Breytingarnar þýða að verð á flösku af dýru rauðvíni lækkar en ódýr rauðvín með sama áfengisstyrkleika hækka í verði.
» Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarpið sem er nú til meðferðar í stjórnarþingflokkunum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert