Tilnefningar til blaðamannaverðlauna birtar

Nú liggja fyrir tilnefningar dómnefndar til blaðamannaverðlauna fyrir árið 2006. Þetta er í fjórða sinn sem verðlaunin eru veitt en tilkynnt verður hver þau hlýtur eftir viku.

Þrjár tilnefningar eru í hverjum flokki verðlaunanna, sem eru besta umfjöllun ársins 2006, rannsóknarblaðamennska ársins 2006 og blaðamannaverðlaun Íslands 2006.

Tilnefningar í hverjum flokki eru eftirfarandi.

Besta umfjöllun ársins 2006
Auðunn Arnórsson, Fréttablaðinu, fyrir ítarlega, aðgengilega og vandaða umfjöllun um Evrópumál í greinaflokknum „Ísland og Evrópusambandið.”

Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Kastljósi, fyrir tímabæra, upplýsandi og notendavæna greiningu á hugtökum og staðreyndum úr orðræðu stjórnmálamanna um skattkerfið og þróun þess.

Sigríður Víðis Jónsdóttir, Morgunblaðinu fyrir vandaða og viðamikla umfjöllun um úrræði í skólakerfinu fyrir börn með hegðunarfrávik og geðraskanir í greinaflokknum „Verkefni eða vandamál?”

Rannsóknarblaðamennska ársins 2006
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, Blaðinu fyrir uppljóstrandi fréttaröð í Fréttablaðinu um margfaldan verðmun á samheitalyfjum á Íslandi annars vegar og Danmörku hins vegar.

Henry Birgir Gunnarsson, Fréttablaðinu, fyrir fréttaskrif og eftirfylgd þar sem upplýst er um mikinn mun á launum og kjörum karla og kvenna í A-landsliðum Íslands í knattspyrnu.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Kompási fyrir nýstárlega, hugmyndaríka og afhjúpandi umfjöllun um bæði málefni barnaníðinga og um málefni Byrgisins.

Blaðamannaverðlaun ársins 2006
Davíð Logi Sigurðsson, Morgunblaðinu fyrir skrif um alþjóðamál, þar á meðal skrif um Guantanamo-fangabúðirnar á Kúbu og Íslensku friðargæsluna.

Halldór Baldursson, Blaðinu fyrir skop- og ádeiluteikningar sínar og túlkun á fréttnæmum íslenskum þjóðfélagsviðburðum.

Kolbrún Bergþórsdóttir, Blaðinu fyrir fjölbreytileg og áhugaverð mannlífsviðtöl og menningarskrif sem dreifast yfir allt árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert