Dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir líkamsárásir á fyrrum sambýliskonur

Dómhús Hæstaréttar Íslands.
Dómhús Hæstaréttar Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann á sextugsaldri, Jón Pétursson, í 5 ára fangelsi fyrir þrjár líkamsárásir á fyrrverandi sambúðarkonu sína og húsbrot þegar hann ruddist í heimildarleysi inn í húsnæði þar sem hún var stödd. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir frelsissviptingu og kynferðisbrot gagnvart fyrrverandi unnustu sinni.

Maðurinn var dæmdur til að greiða annarri konunni 1,2 milljónir og hinni 800 þúsund krónur í bætur. Sami maður hefur frá því í desember setið í gæsluvarðhaldi grunaður um stórfellda líkamsárás og kynferðisbrot gagnvart þriðju konunni, sem einnig var sambýliskona hans.

Brotin, sem Jón var nú dæmdur fyrir voru framin sumarið 2005 og í febrúar 2006. Í forsendum héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, kemur fram að brotin gegn konunum hafi verið sérlega hrottafengin og árásirnar verið algerlega tilefnislausar. Maðurinn hefði misnotað aðstöðu sína gegn konunum og að þær hefðu verið honum háðar, þó einkum önnur þeirra. Hann hafi nýtt sér það gróflega hversu hún var honum háð, að vandamenn hennar voru erlendis og hún sjálf ótalandi á íslensku. Árásir mannsins gegn konunni þóttu sérstaklega svívirðilegar þar sem þær voru liður í því að kúga hana og undiroka.

Var Jón sakfelldur af ákæru fyrir að hafa slegið hana margoft víðsvegar um líkamann og sparkað í hana á heimili þeirra sumarið 2005. Síðar um sumarið ruddist hann í heimildarleysi heim til hennar og kýldi hana margsinnis í andlit og líkama og sparkaði í hana.

Ofbeldi Jóns gegn seinni konunni var langvinnt en hann hélt henni nauðugri í íbúð sinni svo klukkustundum skipti og nauðgaði henni í þrígang. Héraðsdómur taldi fráleitar þær viðbárur Jóns, að ítrekað samræði við konuna hefði farið fram með samþykki hennar.

Sannað þótti að hann hefði ráðist á konuna, rifið í hár hennar, slegið andliti hennar í gólfið og dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi þar sem hann barði hana ítrekað í höfuðið, sparkaði í hana, reif úr fötum og nauðgaði. Í næstu hrinu dró hann konuna aftur inn í svefnherbergi og nauðgaði og í síðustu hrinunni dró hann hana enn inn í svefnherbergi þar sem hann þuklaði líkama hennar og þegar hún grátbað hann um að hætta reif hann í hana og nauðgaði henni.

Segir í héraðsdómnum að hin grófu brot mannsins gegn konunum báðum hafi haft miklar afleiðingar í för með sér og ætti hann sér engar málsbætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina