Dómari víkur ekki sæti í máli olíufélaga gegn Samkeppniseftirlitinu

Sigrún Guðmundsdóttir, hérðaðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, úrskurðaði í dag, að hún myndi ekki víkja sæti í máli þriggja olíufélaga gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu. Lögmenn olíufélaganna sögðu að úrskurðurinn yrði að öllum líkindum kærður til Hæstaréttar.

Olíufélögin Ker, Skeljungur og Olís höfðuðu mál gegn Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu til að fá hrundið stjórnvaldsákvörðun um sektir, sem samkeppnisyfirvöld ákváðu að olíufélögin skyldu greiða fyrir ólöglegt samráð.

Lögmenn olíufélaganna kröfðust þess að Sigrún viki sæti í málinu á þeirri forsendu, að hún hefði dæmd í nýlegum skaðabótamálum á hendur olíufélögunum.

Sigrún segir í úrskurði sínum, að þau mál, sem hún hafi dæmt í og olíufélögin séu aðilar að, séu mál Reykjavíkurborgar og Strætó bs. Í báðum tilvikum hafi hún verið dómsformaður og ásamt henni skipuðu dóminn Skúli Magnússon, héraðsdómari, og Friðbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi.

Þá segist Sigrún hafa komið að máli Sigurðar Hreinssonar gegn Keri hf. eftir að Hæstiréttur Íslands hafði hrundið frávísun á þrautaþrautavarakröfu Sigurðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfuna til efnismeðferðar.

„Mál það sem hér er til umfjöllunar varðar stjórnvaldsákvörðun þar sem gerð er krafa um að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála verði felldur úr gildi eða breytt og stjórnvaldssektir lækkaðar. Þau dómsmál er stefnendur vísa til, sem rökstuðning fyrir vanhæfi dómarans, eru skaðabótamál. Því er sakarefnið í málunum ekki það sama. Í fyrrnefndum skaðabótamálum hefur aðkoma dómarans ekki verið að meta hvort gerðir stefnenda hafi verið saknæmar og ólögmætar, heldur einungis hvort málsaðilum hafi tekist að sanna að þeir hafi orðið fyrir tjóni og meta tjónið. Það er því mat dómarans að ekki séu fyrir hendi þau atvik eða aðstæður sem leitt geti til þess að óhlutdrægni hennar verði með réttu dregið í efa," segir m.a. í niðurstöðunni í dag.

mbl.is
Loka