„Fyrrum minnihluti bjargaði Birni Inga fyrir horn"

Björn Ingi Hrafnsson, lengst t.h., ásamt öðrum oddvitum nýrra meirihlutaflokka.
Björn Ingi Hrafnsson, lengst t.h., ásamt öðrum oddvitum nýrra meirihlutaflokka. mbl.is/Brynjar Gauti

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur segir fyrrum minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur í raun hafa bjargað Birni Inga Hrafnssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, fyrir horn í Orkuveitumálinu. Það hversu vel honum hafi verið tekið af minnihlutanum í kjölfar málsins hafi gert það að verkum að hann standi upp frá málinu sem maður sem hafi staðið með sannfæringu sinni. Hefði hann hins vegar gefið eftir og haldið áfram samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn hefði hann litið út sem maður sem gerði hvað sem er til að halda völdum.

„Nú stendur hann hins vegar frammi fyrir því að þurfa að endurvinna tiltrú almennings,” sagði Stefanía er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í kvöld. „Það gagnrýndu það margir er fyrri meirihluti var myndaður að flokkur sem hafði ekki nema fimm prósent atkvæða á bak við sig skyldi fá þetta mikil völd og nú hefur hann tækifæri til að þvo af sér þá áru valdfíknar sem mörgum finnst hafa loðað við Framsóknarflokkinn. Hann sýndi það er fyrri meirihluti var myndaður að hann seldi stuðning sinn dýrt og Sjálfstæðisflokkurinn sýndi honum þá mikið traust. Hann sýnir það hins vegar núna að hann veitir engan afslátt og hann mun því standa og falla með þessu máli og því hvernig úr því vinnst."

Stefanía segir Björn Inga og fyrrum minnihluta nú hafa fengið það erfiða verkefni að halda skútunni á floti í kjölfar þess erfiða máls sem hafi sundrað fyrri meirihluta. Nýr meirihluti taki nú við áhyggjum almennings vegna málsins, sem enn sé ekki til lykta leitt. Mörgum spurningum sé enn ósvarað og í raun óljóst hvort samstaða sé um það innan hins nýja meirihluta hvernig tekið skuli á því.

mbl.is

Bloggað um fréttina