Segja atburðina í Ráðhúsinu sögulega

Frá mótmælum í Ráðhúsinu í dag.
Frá mótmælum í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Ómar

Ungliðahreyfingar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Framsóknar og ungra stuðningsmanna Margrétar Sverrisdóttur segja í yfirlýsingu vegna mótmæla við Ráðhús Reykjavíkur í dag, að atburðir þar í dag hafi verið sögulegir. Bæði hafi verið sögulegt að sjá rödd hins almenna borgarbúa mótmæla svo kröftuglega, og því miður hafi einnig verið sögulegt að horfa upp hryggilegar aðfarir hins nýja meirihluta. 

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Hátt í þúsund Reykvíkingar tóku þátt í mótmælunum sem fram fóru í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Magnað var að sjá þann fjölda almennra borgara á öllum aldri sem mættu til að láta í ljós hversu mjög Reykvíkingum er misboðið. Ungliðahreyfingunum sem efndu til mótmælanna finnst ekki síst ánægjulegt að sjá hversu margir mættu á eigin vegum til að láta í ljós óánægju sína.

Krafan fyrir fundinn var að hætt yrði við myndun hins nýja óstarfahæfa meirihluta. Hvergi verður kvikað frá þeirri kröfu. Vilja hreyfingarnar beina því til einstaklinga innan nýja meirihlutans, sem nýtur stuðnings innan við fjórðungs borgarbúa samkvæmt nýlegri könnun, að skynsamlegast væri að sjá að sér og hætta við.

Atburðurinn í ráðhúsinu í dag var sögulegur. Bæði var sögulegt að sjá rödd hins almenna borgarbúa mótmæla svo kröftuglega, og því miður var einnig sögulegt að horfa upp hryggilegar aðfarir hins nýja meirihluta. Það er sorglegt að fyrsta verk hins nýja meirihluta hafi verið að þagga niður í þeim sem komu til að tjá skoðun sína á nýjum meirihluta. Við hvetjum alla Reykvíkinga til að sýna áfram samstöðu gegn honum."

mbl.is

Bloggað um fréttina