Mikið af föstum bílum í Þrengslunum

Víða eru bílar fastir nú í morgun.
Víða eru bílar fastir nú í morgun. Árvakur/Steinunn

Björgunarsveitarmenn eru búnir að koma nær öllum bílum af Hellisheiði  en í Þrengslum situr enn margt fólk fast í bílum sínum og er unnið við að koma því til byggða. Búist er við að því verki ljúki um hádegisbil en björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út til aðstoðar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg segir, að þrátt fyrir að Hellisheiði hafi verið lokað hafi nokkrir ökumenn ákveðið að leggja á heiðina og sitji þeir nú fastir í Kömbunum.

Á Suðurnesjum er unnið að því að losa bíla á Sandgerðisheiði, Garðvegi, við Vogaafleggjara, á leiðinni til Hafna og víðar. Bílar sitja víða fastir innanbæjar í öllum hliðargötum. Allt tiltækt lið björgunarsveitanna er nú úti og hefur aðstoðað fólk í um 100 bílum í morgun. Félagar úr 4x4 klúbbnum á Reykjanesi hafa einnig aðstoðað samborgara sína í morgun.

Ekkert ferðaveður er á Suðurlandi að sögn björgunarsveitamanna, mikill skafrenningur og skaflar sem ná upp fyrir vélarhlíf á stórum breyttum bílum.

Björgunarsveitir á Akranesi og Borgarnesi hafa einnig verið kallaðar út vegna ófærðar.

Á sjötta tímanum í nótt var Björgunarsveitin Týr frá Svalbarðseyri kölluð út til að losa rútu sem var föst í austanverðu Víkurskarði. Átta manns voru í bílnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert