Eldur í hesthúsi

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í nótt vegna elds í hesthúsi í hesthúsahverfi Sörla í Hafnarfirði. Reyndist eldurinn minniháttar og er búið að ráða niðurlögum hans. Tókst að bjarga öllum hrossunum út úr hesthúsinu.

Hrossin voru átta talsins. Samkvæmt slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er talið að um íkveikju hafi verið að ræða. Slökkviliðið var að störfum við að slökkva í bíl skammt frá hesthúsunum þegar tilkynning um eld í hesthúsinu barst. 

Frá því klukkan hálf átta í gærkvöldi hefur slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnt um sjö útköllum. Þurfti það að sinna tveimur vatnslekum í Reykjavík, við Tjarnargötu og Ránargötu og sinueldi við Hrafnistu. Eldur kom síðan upp í gámi við Fosshótel við Rauðarárstíg.

mbl.is

Bloggað um fréttina