Litla stúlkan fundin

Mikill viðbúnaður björgunarsveita var við Vífilstaðavatn.
Mikill viðbúnaður björgunarsveita var við Vífilstaðavatn. mbl.is/Júlíus

Búið er að finna sex ára gamla stúlku, sem byrjað var að leita að við Vífilstaðavatn eftir hádegið. Stúlkan er í barnaskóla Hjallastefnunnar við Vífilstaðaveg og skilaði sér ekki í skólann eftir hádegishlé.

Var allt tiltækt björgunarlið kallað út til leitar og tóku bæði lögreglumenn og björgunarsveitarmenn með hunda þátt í henni. Nokkru síðar bárust fréttir af því að stúlkan væri fundin heil á húfi. Fannst stúlkan á gangi í Kirkjulundi í miðbæ Garðabæjar og var þá komin talsvert frá skólanum.

Að sögn Ingólfs Más Ingólfssonar, vettvangsstjóra lögreglunnar, voru það kennarar skólans, sem fundu stúlkuna, en þeir höfðu ákveðið að svipast um á því svæði sem björgunarsveitarmenn einbeittu sér ekki að.  Talið er að stúlkan hafi ætlað að ganga heim til sín en hún hafði gengið nokkuð stóran hring þegar hún fannst. Er ljóst að stúlkan fór fyrst yfir hraunið í átt til verslunar Ikea en snéri síðan við og hélt inn í miðbæinn.

Að sögn Ingólfs tóku um 80 björgunarsveitarmenn þátt í leitinni, m.a. með fjórhjól, og einnig var kölluð út þyrla Landhelgisgæslunnar. Var hún komin í loftið þegar fréttist að stúlkan væri fundin. Björgunarsveitarmennirnir leituðu einkum á óbyggðu svæði við vatnið og við lækinn, sem rennur úr því. Ingólfur sagði, að lækurinn væri mjög vatnsmikill nú og þar væru djúpir hyljir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert