Segir flumbrugang einkenna samþykkt stjórnar OR

Óskar Bergsson.
Óskar Bergsson.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segist undrandi á þeim flumbrugangi, sem einkenni samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um að hverfa frá fyrirhugaðri Bitruvirkjun aðeins örfáum klukkustundum eftir að Skipulagsstofnun lagði fram álit sitt á framkvæmdinni.

Óskar segir í tilkynningu, að í umræðum um orkunýtingu hafi það sjónarmið verið ríkjandi að nú ættu Íslendingar að hverfa frá nýtingu vatnsfallanna og huga frekar að nýtingu háhitasvæðanna. Flest öll háhitasvæði landsins séu ósnortin og falleg og því vakni upp spurningar hvort svæðið við Bitru sé merkilegra náttúrufyrirbæri en önnur þau svæði sem hljóta að koma til skoðunar. Virkjanasvæðið við Bitru liggi nálægt öðrum virkjunarstöðum á Hengilssvæðinu og sé meira snortið en mörg önnur háhitasvæði landsins.

Óskar veltir því fyrir sér hvort þessi skyndiákvörðun stjórnar Orkuveitunnar muni binda hendur fyrirtækisins til orkuframleiðslu á öðrum sambærilegum svæðum á sama tíma og þjóðir heimsins horfi til okkar öfundaraugum vegna þeirra möguleika sem höfum á sviði hreinnar og endurnýjanlegrar orku.

„Ekkert lá á þessari ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar í dag þar sem álit Skipulagsstofnunar var fyrst kynnt í gær. Eðlilegra hefði verið að taka málið til umræðu í borgarstjórn hér í dag og taka yfirvegaða ákvörðun í kjölfar upplýstrar umræðu.

Að þessu sögðu og í ljósi ummæla borgarstjóra hér í dag þá er óskað eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur, nema þá að Ólafur F Magnússon sé orðinn helsti hugsuður og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og orkumálum," segir í tilkynningu Óskars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert