Segist ekki hafa hafnað Bitruvirkjun

Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun. Myndin …
Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun. Myndin er tekin af vefnum hengill.nu.

Skipulagsstofnun segir í yfirlýsingu, að í áliti stofnunarinnar um umhverfisáhrif Bitruvirkjunar, sem byggt sé upp á sama hátt og fyrri álit, sé ekki verið að „leggjast gegn" eða „hafna" byggingu Bitruvirkjunar. Það sé ekki hlutverk Skipulagstofnunar.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

Skipulagsstofnun birti álit sitt á umhverfisáhrifum Bitruvirkjunar mánudaginn 19. maí sl. Í fjölmiðlum hefur verið látið að því liggja að Skipulagsstofnun hafi hafnað virkjuninni eða lagst gegn henni og farið með því út fyrir valdsvið stofnunarinnar. Í yfirlýsingu frá Samorku er því t.d. haldið fram að hlutverk Skipulagsstofnunar sé ekki að taka afstöðu heldur fyrst og fremst að staðfesta að matið hafi verið unnið með lögbundnum hætti.

Það er rétt að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með síðari breytingum kemur fram að Skipulagsstofnun skuli gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Það sem hins vegar virðist hafa farið framhjá mörgum sem hafa tjáð sig um málið er að í 24. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 segir m.a. að Skipulagsstofnun skuli gera grein fyrir helstu forsendum matsins og niðurstöðum stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum. Þetta þýðir með öðrum orðum að Skipulagsstofnun ber í áliti sínu að leggja mat á umhverfisáhrifin.

Í lögunum og reglugerðinni kemur fram að telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmd en fram koma í matsskýrslu eða gera þurfi aðrar eða frekari mótvægisaðgerðir skal stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðir og færa rök fyrir þeim. Í því sambandi er vandséð hverning stofnunin á að geta lagt til skilyrði ef hún á ekki leggja mat á umhverfisáhrifin.

Skipulagsstofnun hefur á undanförnum 3 árum sent frá sér 12 álit á umhverfisáhrifum framkvæmda. Í 3 tilvikum hefur niðurstaðan verið að umhverfisáhrifin myndu verða ekki ásættanleg og óafturkræf. Í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfisáhrif Bitruvirkjunar, sem byggt er upp á sama hátt og fyrri álit, er ekki verið að „leggjast gegn" eða „hafna" byggingu Bitruvirkjunar. Það er ekki hlutverk Skipulagstofnunar. Við útgáfu leyfis til framkvæmda ber hins vegar leyfisveitanda að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar og birta opinberlega ákvörðun sína sem er kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert