Snarpur samdráttur framundan

Ólafur Darri Andrason
Ólafur Darri Andrason Þorkell Þorkelsson

Hagdeild ASÍ segir snarpan en fremur skammvinnan samdrátt í landsframleiðslu framundan. Á árinu 2009 áætlar hún að landsframleiðsla dragist mjög mikið saman, eða 8-10%. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands kynnti samantekt deildarinnar nú undir hádegið, á ársfundi ASÍ á Hilton Nordica. Ólafur sagði þennan samdrátt þann mesta sem sést hafi hér í áratugi. Lægðin verði mjög djúp á næsta ári.

Ólafur Darri sagði samdráttinn samanstanda af hruni viðskiptabankanna og svo óbeinni minnkun framleiðslu vegna þess.

Hann sagði líklega aldrei hafa verið erfiðara að gera sér grein fyrir horfunum en nú, og kallaði þetta ekki spá heldur samantekt. Framvindan velti í raun að mjög miklu leyti á innlendum viðbrögðum og erlendri aðstoð. Raunin geti orðið mun svartari en samantektin gefi til kynna, hins vegar hafi hagdeildin trú á því að svo verði ekki.

Margir þættir munu leggjast á eitt til að draga úr neyslu heimilanna. Hagdeildin gerir ráð fyrir því að einkaneyslan minnki um tæp 6%m illi áranna 2007 og 2008. Á árinu 2009 nær samdrátturinn hámarki þegar einkaneyslan dregst saman um tæpan fimmtung, en verður svo óbreytt á árinu 2010. Hluti af þessari miklu minnkun í einkaneyslu mun skýrast af fólksfækkun, þegar margir útlendingar flytjast úr landi, að sögn Ólafs Darra.

Hagdeildin spáir um þriðjungssamdrætti í fjárfestingum á næsta ári, mest í íbúða- og atvinnuvegafjárfestingu. Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við álverið í Helguvík. Hins vegar gerir hagdeildin ráð fyrir óbreyttum opinberum fjárfestingum. Hins vegar er gert ráð fyrir þriðjungsaukningu í fjárfestingu á árinu 2010, frá næsta ári.

Hagdeildin áætlar að útflutningur aukist um 10% á þessu ári vegna aukningar í álframleiðslu. Á næsta ári dragist útfluningur saman um 4-5%, að mestu vegna samdráttar í þjónustuútflutningi í viðskipta- og fjármálaþjónustu.

Atvinnuleysi á að aukast umtalsvert samkvæmt samantektinni. Á næstu tveimur árum verði atvinnuleysið á bilinu 4-5%.

Ólafur Darri sagði skuldir heimilanna miklar og staða margra viðkvæma. Á þremur árum hafi skuldir heimilanna aukist um 80% og gengisbundin lán hafi sjöfaldast. Skuldabyrði yngsta fólksins er mikil og skuldsettasti hópurinn fólk á fertugsaldri. Forgangsmál væri að ná niður verðbólgu og styrkja gengi krónunnar, tryggja fólki aðgang að fjármálaráðgjöf og aðstoð í greiðsluerfiðleikum. Sérstaklega mikilvægt sé að aðstoða fólk áður en það lendir í þrotum.

Ólafur Darri sagði nauðsynlegar en óvinsælar ákvarðanir framundan. Hann sagði inngöngu í ESB og upptöku evru forsendu fyrir því að hægt verði að koma á stöðugleika til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert