Kynbundinn launamunur 19,5%

Lengi hefur verið barist gegn kynbundnum launamun hér á landi.
Lengi hefur verið barist gegn kynbundnum launamun hér á landi.

Kynbundinn launamunur á heildarlaunum, þegar tekið hefur verið tillit til vinnutíma, starfs, menntunar, aldurs, atvinnugreinar, ábyrgðar í starfi og hvort fólk er sjálfstætt starfandi eða launþegar, er 19,5%, samkvæmt launarannsókn, sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir félagsmálaráðuneyti.

Um er að ræða fyrstu launarannsóknina, sem nær yfir allan vinnumarkaðinn hér á landi en fyrri rannsóknir hafa verið bundnar við einstök stéttarfélög, fyrirtæki eða stofnanir. 

Í rannsókninni kemur fram að mun meiri kynbundinn launamunur er á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.  

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna, að konur í fullu starfi eru með 77% af grunnlaunum karla í fullu starfi og 74% af heildarlaunum þeirra. Að jafnaði eru karlar með lengri vinnutíma en konur og að teknu tilliti til vinnutíma eru konur með 84% af launum karla.

Á landsbyggðinni hafa konur, sem starfa í opinbera geiranum, 69% af heildartímalaunum karla, sem starfa á sama sviði. Leiðréttur kynbundinn launamunur á heildarlaunum á höfuðborgarsvæðinu er 10,3%.

Þá eru heildartímalaun karla á höfuðborgarsvæðinu 16% hærri en karla á landsbyggðinni og heildartímalaun kvenna á höfuðborgarsvæðinu eru 29% hærri en kvenna á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert