Akureyri hækkar gjaldskrár um 10%

Opnun menningarhússins Hofs verður frestað til ársins 2010.
Opnun menningarhússins Hofs verður frestað til ársins 2010. mbl.is/Skapti

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag. Þar er m.a. gert ráð fyrr 10% hækkun á almennum gjaldskrám og 10% lækkunar launa bæjarstjóra, bæjarfulltrúa og nefndarfólks. Í fréttatilkynnigu segir að betra sé að búa við tímabundinn hallarekstur en að skera niður í mannafla og framkvæmdum.

„Haft var að leiðarljósi að verja grunnstoðir í þjónustu bæjarfélagsins í þeim efnahagsþrengingum sem nú ganga yfir þjóðfélagið. Sérstaklega var horft til þess að halda vel utan um starfsemi grunn- og leikskóla bæjarins, sem og félagsþjónustuna, og einnig að verja störf og mannaflsfrekar framkvæmdir eftir því sem kostur er,“ segir í fréttatilkynningu frá Akureyrarbæ.

Leikskóla- og frístundagjöld hækka ekki þrátt fyrir 10% almenna hækkun á gjaldskrám. Þá kemur fram að engar uppsagnir verði meðal starfsmanna bæjarins en öll störf sem losna verði skoðuð sérstaklega og reynt að forðast nýráðningar. Dregið verður úr yfirvinnu þar sem það er mögulegt, og skorið niður eins og hægt er í rekstrargjöldum stofnana þar sem sérstaklega verður horft til þátta eins og ferðakostnaðar, skrifstofuvara, kaupa á áhöldum og munum o.s.frv. Áætlað er að með þessu geti bæjarfélagið sparað um 200-300 milljónir króna.

Einnig kemur fram að framkvæmdir á KA-velli verði nú settar í bið, en áfram sé ráðgert að opna Naustaskóla haustið 2009. Forsendur fjárhagsáætlunarinnar eru að meðalverðbólga á árinu verði 7% og að íbúum bæjarins fjölgi um 200 manns.

mbl.is

Bloggað um fréttina