Verða 10 þúsund atvinnulausir um áramót?

Allt lítur nú út fyrir að fjöldi atvinnulausra verði kominn yfir 10.000 fyrir áramót. Þetta er allt önnur staða en í upphafi árs en þá voru 1.550 manns skráðir atvinnulausir. Þessi mikla fjölgun atvinnulausra hefur þó að mestu átt sér stað á seinni hluta ársins. Fjöldi atvinnulausra í lok mánaðar fór yfir 2.000 í júní og fór vaxandi fram eftir hausti. Enn fjölgaði svo atvinnulausum í kjölfar fjármálakreppunnar. Í lok október voru atvinnulausir orðnir 4.000 sem var fjölgun um 1.500 manns á aðeins einum mánuði. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

155 skráningar á hverjum degi

Í lok nóvembermánaðar voru 6.350 skráðir án atvinnu samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar en í dag eru 9.293 skráðir án atvinnu, sem samsvarar  því að atvinnulausum hafi fjölgað um 155 manns hvern einasta dag desembermánaðar. Skráð atvinnuleysi hjá vinnumiðlunum var 3,3% í nóvember og hefur ekki mælst svo mikið síðan í maí 2004. Vinnumálastofnun býst við að atvinnuleysi í desembermánuði verði á  bilinu 4,5%-5%.

Hópuppsagnir taka gildi í byrjun árs

„Búast má við að fjöldi atvinnulausra muni aukast hratt á nýju ári, sérstaklega á fyrstu mánuðum ársins en þá má mun mikill hluti þeirra hópuppsagna sem urðu í október og nóvember taka gildi. Alls misstu 3.500 manns vinnuna í 64 hópuppsögnum í október og nóvember. Vinnumálastofnun reiknast til að um 1.000 manns verði atvinnulausir eða án launagreiðslna vegna hópuppsagna um áramótin og að á bilinu 600 -700 uppsagnir komi til framkvæmda næstu þrenn mánaðarmót á eftir, mest í byrjun marsmánaðar.

Ljóst er að afar erfitt ástand verður á vinnumarkaði í upphafi næsta árs og enn gæti komið til fleiri hópuppsagna á næstu mánuðum," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is