Telja að óreiðumenn stjórni bönkunum

Benedikt Jóhannesson
Benedikt Jóhannesson mbl.is/Sverrir

Íslenska ríkið hefur á fáum mánuðum farið úr því að vera skuldlaust í að vera eitt það skuldugasta í heimi. Þetta verður til þess að hefta allar framfarir í landinu um langa framtíð. Fjórðungur fjárlagaútgjalda fer í vaxtagreiðslur. Útlendir bankar telja að í íslenskum fjármálastofnunum séu óreiðumenn og gildir þar einu hvort um er að ræða banka, sparisjóði eða Seðlabanka. Þetta kemur fram í pistli Benedikts Jóhannessonar, framkvæmdastjóra útgáfufélagsins Heims, á vef Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins. 

„Það sem verra er, útlendingar treysta íslenskum fyrirtækjum almennt ekki lengur. Jafnvel þar sem áratuga viðskiptasaga er að baki neita erlendir aðilar að veita íslenskum fyrirtækjum venjulegan greiðslufrest og krefjast staðgreiðslu. Litið er á Íslendinga með ríkið í broddi fylkingar sem kennitöluflakkara.

Útilokað er halda áfram þeim hroka að hér á landi gildi engin efnahagslögmál. Þeir sem héldu því fram að þjóðinni væri fyrir bestu að reka eigin gjaldmiðil höfðu rangt fyrir sér. Það brjóstumkennanlegt að sjá þá suma enn við sama heygarðshornið. Þeir bera öðrum fremur ábyrgð á því vonleysi sem nú ríkir í þjóðfélaginu.

Það yrði ekki til þess að efla álit Íslendinga í samfélagi þjóðanna að taka einhliða upp mynt í óþökk þeirra sem gefa hana út. Jafnvel þó að því fylgdu ekki þær hættur á frekari áföllum sem bent hefur verið á," skrifar Benedikt.

Hann segir að til þess að endurvinna traust umheimsins verði Íslendingar að sýna að þeir ætli að fylgja þeim leikreglum sem almennt gilda í samskiptum þjóða. Umsókn að Evrópusambandinu væri yfirlýsing um að hér ætli menn að taka sig á og stefni að þeim efnahagsaga sem fylgir aðild að evrópska myntbandalaginu.

„Umsókn að ES(B) er ekki lausn alls vanda. Aðild er það ekki heldur. En til lengri og skemmri tíma litið gefur hún umheiminum til kynna að þjóðin ætli að taka af festu á sínum efnahagsvanda og temja sér í framtíðinni þann aga sem nauðsynlegur er til þess að halda jafnvægi í hagstjórn. Það byggir upp traust á þjóðinni.

Þannig fetum við okkur frá ánauð til frelsis," að sögn Benedikts Jóhannessonar.

Pistill Benedikts Jóhannessonar í heild

mbl.is