Gagnrýnir tafir á umsókn Íslands

Andrej Hunko, þingmaður Die Linke.
Andrej Hunko, þingmaður Die Linke.

Andrej Hunko, þingmaður Græningja í Þýskalandi, gagnrýndi fyrir helgi áform þýska þingsins um að tefja fyrir því að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu fái brautargengi og gaf til kynna að stjórnarþingmenn hefðu skipt um skoðun eftir þrýsting frá Bretum og Hollendingum vegna Icesave. 

Hunko sagði í ræðu sinni að Þjóðverjar ættu að taka sér þjóðaratkvæðið á Íslandi til fyrirmyndar. „Íslendingar hafa komið skoðun sinni greinilega á framfæri: „Við borgum ekki fyrir þessa kreppu. Við borgum ekki fyrir kreppu banka og spákaupmanna. Og af hverju spyr maður sig eiga sér ekki stað í Þýskalandi nein þjóðaratkvæði um grundvallarspurningar á borð við bankabjörgunarpakkann, sem mun íþyngja opinberum sjóðum á næstu árum með 500 milljörðum evra.“

Hunko fjallaði um umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Taka hefði átt málið fyrir á leiðtogafundi Evrópusambandsins 25. mars, en nú virtist eiga að „slá ákvörðun á frest vegna þess að bresk og hollensk stjórnvöld vilja nota upptöku aðildarviðræðna sem þvingu í samningunum um Icesave-skuldirnar“.

Hunko var í þýskri þingmannanefnd, sem kom til Íslands fyrr í þessum mánuði. Í ræðu sinni sagði hann að það hefði verið eining þvert á flokkslínur meðal þingmannanna, sem hingað komu, um að skilja ætti á milli Icesave-spurningarinnar og aðildarmálsins, Icesave væri tvíhliða eða þríhliða mál. „Þess vegna er mér fullkomlega óskiljanlegt hvers vegna stjórnarþingflokkarnir vilja nú augljóslega tefja aðildina eins og kom í ljós í ESB-þingnefndinni í gær,“ sagði Hunko. „Þetta lyktar mjög af því að þrýstingi hafi verið beitt í þá veru.“

Þýskur dómstóll úrskurðaði í fyrra að þjóðþingið yrði að taka fullan þátt í innleiðingu mikilvægra laga og reglna Evrópusambandsins, þar á meðal stækkunarmálum. Hafa þurfi samráð við tilteknar þingnefndir. Þetta er í fyrsta skipti, sem slíkt samráð á sér stað.

Hunko tók í ræðu sinni fram að græningjar hefðu stutt kröfuna um að þingið fengi meira vald í ákvarðanatöku með því að kæra Lissabon-sáttmálann til þýska stjórnlagadómstólsins, en bætti við: „Það er hins vegar ekki viðunandi - og það er nú að gerast - að aukinn réttur þingsins sé notaður sem yfirskin til þess að tefja upphaf aðildarviðræðna. Það er hægt að taka ákvöðrun fyrir 25. mars 2010 og halda allar leikreglur þingsins, það er fyrir næsta leiðtogafund ESB. Ég skora á ykkur að gera það.“

Hunko sló einnig vara við því að Evrópusambandið liti á inngöngu Íslands sem einhvers konar aðgangsmiða að Norðurheimskautinu og þeim olíu- og gaslindum, sem þar sé að finna: „Við viljum ekki að eSB taki þátt í kapphlaupi heimsveldanna um síðustu olíu- og gasforðabúr heimsins. Kominn er tími til að við förum aðrar leiðir en gert var á slóðum, sem eru auðugar af hráefnum, á 19. og 20. öld. Þess vegna viljum við leggja bann við nýtingu auðlinda á Norðurheimskautinu.“

Að endingu sagði Hunko að kreppan á Íslandi væri meitluð mynd af almennri kreppu kapítalismans, sem drifinn væri áfram af fjármálamörkuðum. Ísland ætti ekki að bera skaðann umfram aðra og óviðunandi væri að Bretar spyrtu Ísland við al-Qaeda á lista yfir hryðjuverkamenn til að fyrsta íselnskar eignir. Sömuleiðis gagnrýndi hann að nota ætti aðildarviðræður að Evrópusambandinu til þess að knýja Íslendinga til að afnema gjaldeyrishöft.

„Afstaða íslensku þjóðarinnar til aðildar að ESB var lengi vel jákvæð,“ sagði Hunko að lokum. „Á undanförnum mánuðum hefur þessi afstaða tekið gagngerum breytingum. Nú hafna tveir þriðju inngöngu. Ég hef þegar gefið til kynna hvers vegna ... Mín tilfinning er hins vegar sú að hér þurfi ekki aðeins Íslendingar að innleiða breytingar, til dæmis í hvalveiðimálum, heldur þurfi fyrst og fremst pólitík Evrópusambandsins að breytast.“

mbl.is