Mikilla tíðinda að vænta

 Það var nöturleg aðkoma sem mætti forseta þingsins þegar hann kom í þinghúsið í morgun. Brotnar rúður, málningarslettur, og önnur ummerki eftir átök á Austurvelli í nótt þar sem lögregla beitti táragasi. Gríðarleg spenna er í þinghúsinu.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur ekki verið kallaður til fundar til að ræða stöðuna í ljósi vilja Samfylkingarinnar í Reykjavík og fleiri flokksfélaga. Ljóst er þó að þingmennirnir ráða ráðum sínum í öllum hornum.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir þingmaður studdi ályktunina um stjórnarslit og kosningar á fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún segist telja að það sé komið nóg. Kjörnir fulltrúar verði að hlusta og taka mark á því sem kemur fram. Hún segir að hún muni fylgja þeirri niðurstöðu sem verður ofan á í þingflokkum en staðreyndin sé sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið völd í sautján ár og sé nú að vissu leyti kominn í þrot. Hann beri mikla ábyrgð á efnahagshruninu og einsýnt að það þurfi að gefa honum frí. Hún ítrekar þó að sjálf ætli hún að fylgja þingflokknumMikill hiti var á fundi Samfylkingarinnar í Reykjavík í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkvöldi, bæði innandyra og utandyra þar sem voru komnir saman fjölmargir mótmælendur. Stemmningin var heit. Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir varaborgarfulltrúi sagðist ekki trúa öðru en að þingflokkurinn myndi slíta stjórnarsamstarfinu, þetta væri búið. Traustið vantaði og þá væri engin ríkisstjórn.

Eftir að spurðist út að fundurinn hefði ályktað um stjórnarslit og kosningar dönsuðu mótmælendur af fögnuði.

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur, sagði að ríkisstjórnin myndi varla lafa út vikuna úr þessu. Hann sagðist telja að mikilla tíðinda og breytinga væri að vænta, jafnvel strax í dag.

Eftir að fundi var lokið í Þjóðleikhúsinu héldu mótmælendur á Austurvöll og um nóttina fór allt úr böndunum. Rúður voru brotnar í Dómkirkjunni og þinghúsinu og gerður aðsúgur að lögreglu. Um tíma skarst í odda með þeim mótmælendum sem vildu hafa friðsamleg mótmæli og annarra sem vildu fara fram með ofbeldi.  Hluti mótmælenda sló skjaldborg um lögreglumenn sem verið að grýta. Enginn var handtekinn en lögreglan reyndi að handtaka mann sem slapp úr haldi hennar handjárnaður fyrir aftan bak. Síðar um nóttina beitti lögreglan svo táragasi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert