Allt stefnir í vinstristjórn

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. Ómar Óskarsson

Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna (VG) verður að öllum líkindum mynduð í dag. „Það stefnir allt í vinstri stjórn,“ sagði viðmælandi Morgunblaðsins í Samfylkingunni. Viðræður milli flokkanna hófust í gærkvöldi en heimildir Morgunblaðsins herma að fulltrúar þeirra hafi rætt óformlega saman síðustu daga um mögulegt samstarf ef fyrra ríkisstjórnarsamstarf héldi ekki.

Þegar ljóst var að ríkisstjórnin væri sprungin stóð vilji VG fyrst til þjóðstjórnar. Fljótlega varð þó ljóst að slík stjórn var ekki líkleg þar sem Samfylkingin vildi að Jóhanna Sigurðardóttir leiddi hana, en Geir H. Haarde taldi að það ætti að vera fulltrúi stærsta stjórnmálaflokksins. Stjórn VG fundaði síðan í gærkvöldi um stjórnarmyndun og í kjölfarið var boðaður flokksráðsfundur klukkan 20.30 í kvöld, en hann er æðsta vald flokksins milli landsfunda. Á þeim fundi verður farið fram á samþykki fyrir nýrri ríkisstjórn.

Baldur og bankastjórar víki

Helstu áherslur VG í nýrri ríkisstjórn eru þær að hert verði á rannsókn bankahrunsins og að fleiri erlendir sérfræðingar verði fengnir til verksins. Flokkurinn vill að hreinsun eigi sér stað innan stjórnsýslunnar og í eftirlitsstofnunum. Bankastjórar Seðlabankans verði því látnir víkja og nýtt skipulag tekið upp í bankanum. Auk þess verði Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, látinn hætta störfum.

VG mun einnig fara fram á stjórnarskrárbreytingu þess efnis að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur verði sett þar inn. Þá vill VG að ráðherrum verði fækkað, að eftirlaunalögin verði afnumin að fullu og að boðaðar skipulagsbreytingar í heilbrigðiskerfinu verði endurskoðaðar. Flokkurinn vill einnig að rætt verði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að endurskoða stýrivaxtastefnu fyrra samkomulags með það fyrir augum að vextir lækki hraðar en áður var áætlað.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »