Búinn að staðfesta lögin

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur staðfest með undirskrift ný lög um Seðlabanka Íslands. Lögin taka gildi um miðnætti. Breytingarnar voru fyrir skömmu kunngjörðar í stjórnartíðindum.

Þau gera ráð fyrir því, að einn aðalbankastjóri verði skipaður við Seðlabankann og einn aðstoðarbankastjóri. Þá verði sett á stofn peningastefnunefnd, sem taki ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum.

Við gildistöku laganna er bankastjórn Seðlabanka Íslands lögð niður og þar með embætti þriggja bankastjóra sem sæti eiga í stjórninni, þ.m.t. embætti formanns bankastjórnar sem Davíð Oddsson gegnir. Á forsætisráðherra að auglýsa nýtt embætti seðlabankastjóra og nýtt embætti aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar eins fljótt og hægt er. Þá skal forsætisráðherra  setja tímabundið menn í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra sem gegna embætti þar til skipað hefur verið í stöðurnar á grundvelli auglýsinga. Líklegt er að það verði gert í fyrramálið, samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Kristjánssyni, upplýsingafulltrúa í forsætisráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina