Ísbændur í Kinn

Ísklifrarar víða að úr heiminum hafa spreytt sig á ísfossunum nálægt Björgum í Kaldakinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Frægð Kaldakinnar sem ísklifurparadísar hefur borist víða. Þótt Kinnin dragi nafn sitt af kalda, en ekki kulda, verður þar nógu kalt til að tröllauknir ísfossar geta myndast allt frá fjallabrúnum og niður í klettabeltin ofan við fjöruna. Stærð fossanna fer eftir úrkomu. Íþróttin er helst stunduð hátt til fjalla og því þykir mörgum nýnæmi að geta fikrað sig upp ísfossa ofan við ólgandi brim með ærandi brimgný í eyrum. Þær aðstæður þykja einstakar á heimsvísu.

Hlöðver Pétur Hlöðversson, bóndi á Björgum, sagði að ekki þyrfti að fara langt til að komast í ísfossa. „Það er nánast samfellt klettabelti héðan og út að sjó. Það byrjar svona 200 m frá bænum og er þar nokkurra metra hátt. Svo ná ísfossarnir upp í 120-180 m. Frægastur er Stekkjarstaur,“ sagði Hlöðver.

Þekktir ísklifrarar frá Mið-Evrópu og Bretlandi hafa komið í fylgd ljósmyndara að Björgum og birt greinar í víðlesnum tímaritum.

„Ég hef ekki kynnt þetta neitt, en fólk hefur farið ánægt héðan,“ sagði Hlöðver. Hann sagði Breta hafa sótt mikið til Noregs í ísklifur. Möguleikar gætu falist í því að kynna Kinnarfjöllin í klakaböndum þar í landi. Bæði væri um styttri veg að fara og eflaust ódýrara nú á tímum.

http://bjorgum.is/icebjorg/

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »