Kaupin ganga vonandi eftir

Margeir Pétursson.
Margeir Pétursson. Kristinn Ingvarsson

„Við vonumst til þess að þetta gangi nú allt eftir, en hins vegar áttuðum við okkur ekki á því að staða Nýja Kaupþings væri svona erfið. Við höfum samþykkt að taka tillit til þess hvernig staðan er, en Fjármálaeftirlitið er nú með þetta mál hjá sér og útfærslan er í höndum þess,“ segir Margeir Pétursson, stjórnarformaður MP banka.

MP banki ætlar sér að kaupa vörumerki SPRON, útibúakerfi og Netbankann, nb.is, en kaupin hafa ekki gengið endanlega í gegn. Til stóð í upphafi að bjóða upp á hefðbundna einstaklingsþjónustu í þremur útbúa SPRON frá og með deginum í dag en það gekk ekki eftir.

Samtals átti MP banki að greiða um 800 milljónir vegna kaupanna. Eins og greint er frá í Morgunblaðinu í dag, herma heimildir blaðsins, að Seðlabanki Íslands hafi beitt sér fyrir því að kaupin gengu ekki strax í gegn þar sem hætta væri á því að viðskiptavinir Nýja Kaupþings sem áður voru hjá SPRON, myndu flykkjast frá bankanum. Það hefði getað valdið því að Kaupþing hefði ekki tök á því að greiða út allar innstæður.

Forsvarsmenn Nýja Kaupþings voru ósáttir við hvernig staðið var að sölunni á SPRON til MP banka. Sú ráðstöfun olli Kaupþingsmönnum áhyggjum þar sem þeir töldu að eignir SPRON hefðu átt að vera til tryggingar þeim innlánum sem færð voru yfir í bankann, þegar SPRON var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu. Því hefði getað komið upp sú staða að útvega þyrfti fjármagn með mjög skömmum fyrirvara, annaðhvort með fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum eða með brunaútsölu á eignum SPRON, til að standast áhlaup fyrrum viðskiptavina SPRON.

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert