Bankinn fékk ekki lyklana

Bíll var grafinn niður í holu við húsið.
Bíll var grafinn niður í holu við húsið. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Frjálsi fjárfestingarbankinn eignaðist íbúðarhúsið við Hólmatún á Álftanesi á nauðungaruppboði í nóvember en fyrri eigandi reif það að mestu í dag. Bankinn hafði ekki fengið lyklavöldin. Gengið verður í það í dag að hreinsa byggingarefnið af lóðinni og ganga frá umhverfinu.

Haft var eftir fyrrum eiganda hússins í fréttum Stöðvar 2 í kvöld að honum hefði nýlega verið birt útburðartilkynning. Hann hefði ekki haft neinu að tapa, ekki skipti máli hvort hann færi á hausinn vegna 60 milljóna króna skuldar eða 120 milljóna. Með þessu gæti hann líka vakið athygli á slæmri stöðu sinni sem skuldara.

Bjarni S. Einarsson, skipulags- og byggingarfulltrúi Álftaness, segir að sækja þurfi um byggingarleyfi til niðurrifs húsa en engin umsókn hafi borist um rif þessa húss. Hann segist hafa komið fyrst að þessu máli sem íbúi, í gönguferð um götuna. „Ég sá hvað var að gerast og kallaði lögreglu og eigendur til,“ segir Bjarni. „Ég er orðlaus yfir þessu,“ bætir hann við.

Ingólfur Friðjónsson hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum segir að bankinn hafði eignast húsið á uppboði í nóvember 2008 en húsið hafi ekki verið komið í vörslu hans. Til hafi staðið að taka við lyklunum og vörslu hússins hjá fyrri eiganda næstkomandi föstudag.

„Þetta kom okkur algerlega í opna skjöldu, eins og öðrum,“ segir Ingólfur.

Ingólfur og Bjarni telja húsið ónýtt. Bílskúrinn sé það eina sem eftir standi. 

Búið er að semja við verktaka um að hreinsa leifar hússins svo þær valdi ekki hættu og tjóni fyrir nágranna og verður það gert í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina