Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, Guðlaugur Sverrisson stjórnarformaður OR segja Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra ítrekað hafa „brugðið fæti fyrir verkefni“ sem tiltekið er í stöðugleikasáttmálanum að stjórnvöld þurfi að standa við.
„Það er ótækt að búa við það að fulltrúi ríkisstjórnarinnar leitist við að draga úr fjárhagslegum trúverðugleika þessa fyrirtækis í almannaeigu,“ segir í yfirlýsingu þeirra.
Yfirlýsing Hjörleifs og Guðlaugs er hér að neðan:
„Í ljósi ítrekaðra tilrauna umhverfisráðherra til að bregða fæti fyrir verkefni, sem tiltekið er í Stöðugleikasáttmálanum, tekur Orkuveita Reykjavíkur undir kröfur verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins um að ríkisstjórn Íslands standi við skuldbindingar sínar.
Orkuveita Reykjavíkur vinnur nú að byggingu 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar, sem er líklega stærsta, einstaka mannaflsfreka framkvæmd sem stendur yfir í landinu. Hún er ekki fjármögnuð að fullu til langs tíma. Orkuveita Reykjavíkur hefur vilyrði fyrir langtímafjármögnun verkefnisins frá Evrópska fjárfestingarbankanum. Fjármögnun bankans næði einnig til helmings Hverahlíðarvirkjunar, sem er ein af forsendum atvinnuuppbyggingar í Helguvík. Með Stöðugleikasáttmálanum hefur ríkisstjórn Íslands skuldbundið sig til að veita verkefninu brautargengi.
Hrun íslensks efnahagslífs hefur tafið afgreiðslu lánsins en það yrði á allt öðrum og hagstæðari kjörum en bjóðast hér á landi.
Bankinn hefur traust og fulla trú á að Orkuveita Reykjavíkur geti staðið undir umræddum framkvæmdum og lánum þeim tengdum, enda hefði hann ella ekki gefið vilyrði um slíkt.
Þessa dagana er það að ráðast hvort trúverðugleiki íslensks efnahagslífs er nægur til að lánið fáist.
Við þessar aðstæður kýs ráðherra í ríkisstjórn Íslands að ráðast fram á sviðið og lýsa því yfir að Orkuveita Reykjavíkur sé ekki fær um að ráðast í þessar framkvæmdir. Það er ótækt að búa við það að fulltrúi ríkisstjórnarinnar leitist við að draga úr fjárhagslegum trúverðugleika þessa fyrirtækis í almannaeigu. Í ljósi skuldbindinga ríkisvaldsins gagnvart Helguvíkurverkefninu, verður að líta svo á að ráðherrann sé að þjóna sérskoðunum sínum á kostnað Orkuveitu Reykjavíkur, eigenda hennar og alls almennings í landinu.
Aðstæður í íslensku efnahagslífi eru þannig að leitast hefur verið við að fá alla til að leggjast á árar og róa í sömu átt. Orkuveita Reykjavíkur tekur þátt í þeim róðri með því að leggja sitt af mörkum til uppbyggingar. Til þess hefur fyrirtækið meðal annars notið atbeina fjármálaráðherra í því skyni að tryggja afgreiðslu lánsins frá Evrópska fjárfestingabankanum. Í bréfi ráðherrans til bankans er lýst fullri trú á getu Orkuveitu Reykjavíkur til að standa við skuldbindingar sínar.
Yfirlýsingar umhverfisráðherra eru því ekki aðeins í fullu ósamræmi við vilja ríkisstjórnarinnar samkvæmt Stöðugleikasáttmálanum heldur einnig við afstöðu fjármálaráðherra.
Í yfirlýsingum sínum undanfarna daga hafa samtök verkalýðs og atvinnurekenda hvatt ríkisstjórn Íslands til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart atvinnulífinu í landinu og uppbyggingu þess úr rústum hrunsins. Vanhugsaðar yfirlýsingar ráðamanna þjóðarinnar geta grafið undan þeim fyrirtækjum sem þessa dagana gera sitt besta til að efla trúverðugleika íslensks atvinnulífs erlendis. Því hlýtur að linna.“