Erlendir bankar með áhuga á Íslandi

Gylfi Magnússon á blaðamannafundi síðdegis.
Gylfi Magnússon á blaðamannafundi síðdegis. mbl.is/Golli

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir nokkuð góðar líkur á því að nýtt fjármagn fari að leita til Íslands í kjölfarið á endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Kveðst hann þekkja til erlendra fyrirtækja í fjármálageiranum sem hafi áhuga á fjárfestingum hér á landi í kjölfarið, en hann var spurður hverjar líkurnar væru á því að erlent fjármagn vildi leita hingað til lands í bráð.

Gylfi vildi ekki gefa upp hvaða fyrirtæki þetta væru, en gaf í skyn að það væru bankar eða sparisjóðir.

Fram kom í máli Gylfa á blaðamannafundi nú fyrir stundu, að samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn muni lengjast fram til maí 2011 í stað þess að ljúka í nóvember á næsta ári eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Gylfi segir áhrif þessa fyrst og fremst vera að tefja allt ferlið. Ef þessi fyrsta endurskoðun, sem lauk í dag, hefði gengið í gegn fyrr hefðu þegar verið tekin skref í þá átt að afnema gjaldeyrishöftin. Hins vegar breyti þessi seinkun ekki miklu í hinu stóra samhengi hlutanna. Áætlunin færist eitthvað inn í í framtíðina en ekki svo mikið sem seinkun þessarar endurskoðunar nemur.

mbl.is