Andlát: Guðmundur Lárusson

Guðmundur Lárusson frjálsíþróttamaður lést 14. janúar sl. á 85. aldursári. Guðmundur fæddist á Eyrarbakka 23. nóvember 1925. Hann var af gullaldarkynslóð íslenskra frjálsíþróttamanna sem gerði garðinn frægan á árunum 1948-1956.

Þar má nefna, auk Guðmundar, Clausen-bræður, þá Hauk og Örn, Gunnar Huseby, Finnbjörn Þorvaldsson, Torfa Bryngeirsson, Ásmund Bjarnason og svo bættist við í lok þessa gullaldarskeiðs silfurhafinn á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956, Vilhjálmur Einarsson.

Guðmundur var félagi í Ármanni. Hann var mjög sigursæll á mótum heima og heiman, bæði í einstaklingskeppni og boðhlaupum.

Hann keppti m.a. á Evrópumeistaramótinu í Brüssel árið 1950 og vann það afrek að verða fjórði í 400 metra hlaupi á nýju Íslandsmeti á tímanum 48,0 sekúndum. Met Guðmundar stóð í meira en 20 ár. Einnig keppti hann fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Helsinki árið 1952.

Guðmundur Lárusson starfaði hjá Pósti og síma í 54 ár, eða til 70 ára aldurs. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Sunnevu Jónsdóttur, og fimm uppkomin börn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert