Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir í lesendabréfi sem birtist í hollensku blaði, að Íslendingar muni leggja sig fram við að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Bretum og Hollendingum og tryggja að Icesave-málið skaði ekki alþjóðleg tengsl.
„Icesave-deilan má ekki skaða langtíma samstarf okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða aðildarferlið að Evrópusambandinu," segir m.a. í bréfinu, sem birtist í Het Financieele Dagblad og Reutersfréttastofan segir frá.
Jóhanna segir, að íslenska þjóðin sé óánægð með, að íslensku bankarnir skyldu hafa getað vaxið jafn mikið og raun bar vitni á alþjóðavettvangi án þess að fjármálaeftirlit á Íslandi, í Bretlandi og Hollandi hafi gripið í taumana. Íslendingar séu einnig óánægðir með þau kjör, sem kveðið er á um í lánasamningunum við Breta og Hollendinga.
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði í vikunni að hann hefði verið fullvissaður um að Íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar hver sem niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni yrði. Hann lagði jafnframt áherslu á, að mikið væri í húfi fyrir Íslendinga.
Bréf Jóhönnu í Het Financieele Dagblad