Sigur fyrir réttarríkið

Björn Þorri Viktorsson
Björn Þorri Viktorsson mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Þarna byggir Héraðsdómur sína niðurstöðu á þeim lagasjónamiðum sem við höfum haldið fram og það er auðvitað gríðarlegt gleðiefni að það skuli loksins vera kominn dómur sem byggir á þeim lögum sem gilda að okkar áliti. Þetta er mikill sigur fyrir réttarríkið og fólkið í landinu að fá loksins niðurstöðu,“  segir Björn Þorri Viktorsson hrl.

Spurður hvort eðlismunur sé á dómnum sem féll í gær og þeim sem féll í desember sl. þar sem Björn Þorri var verjandi lántakandans svarar hann: „Nei, í rauninni ekki. Þetta snýst að mínu viti aðeins um nálgun viðkomandi dómara. Í málinu frá því í desember byggði dómarinn niðurstöðu sína á því að það virtist skipta máli hvernig SP Fjármögnun fjármagnaði sig. Sem okkur finnst alveg dæmalaust að blanda því inn í umræðuna.

Það kemur lántakanda fjármálastofnunar almennt ekkert við hvernig hún fjármagnar sig. En niðurstaða þess dóms byggði að meginhluta til á því. Reyndar er mjög sérstakt að það lágu engin gögn fyrir í því máli um það heldur hvernig SP Fjármögnun fjármagnaði sig heldur var aðeins byggt á framburði Kjartans Gunnarssonar forstjóra um það að SP Fjármögnun tæki erlent lán.“

Að sögn Björns Þorra má búast við því að málið sem dæmt var í desember fari til Hæstaréttar í næstu viku. Hann býst einnig við því að áfrýjað verði í málinu sem féll í gær. Segir hann bagalegt að nú geti liðið allt að átta mánuðir þar til endanleg niðurstaða Hæstaréttar liggi fyrir. 

„En einmitt vegna þess að nokkrir mánuðir geta verið í niðurstöðu er svo gríðarlega mikilvægt að fá jákvæða niðurstöðu í Héraðsdómi þannig að fjármálafyrirtækin og ekki síst stjórnvöld, sem algjörlega hafa firrt sig ábyrgð í málinu, geti þá brugðist við og sjái það að það sé ekki tómt bull sem við höfum verið að halda fram,“ segir Björn Þorri.

Bendir hann á að í nýrri grein Eyvindar G. Gunnarssonar sem birtist í Úlfljóti í síðustu viku þar sem hann fer á fræðilegan hátt yfir málið og kemst efnislega að sömu niðurstöðu á Héraðsdómur í gær. 

Spurður hvort hann búist við því að Hæstiréttur geti komist að tveimur ólíkum niðurstöðum í málunum tveimur segist Björn Þorri eiga erfitt með að sjá það við fyrstu sýn. „Við lestur dómsins frá í gær sýnist mér að atvikin séu fullkomlega sambærileg. Þetta eru sambærilegir samningar við fyrstu sýn og atvik málanna mjög keimlík.“

Björn Þorri reiknar með því að staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms frá því í gær þá verði dómurinn fordæmisgefandi fyrir aðra í sömu stöðu. „Að minnsta kosti fyrir þá sem gert hafa fyrirvara í sínum málum. En auðvitað er það svo og það er auðvitað dapurlegt að fylgjast með því, að fjármálafyrirtækin hafa verið að keppast við að fá lántakendur til þess að skrifa undir nýja skilmála, skuldbreytingar og frystingar og fleira,  sem hefur ef til vill rýrt réttarstöðu lántakenda ef þeir hafa ekki gert skýra fyrirvara áður en þeir skrifuðu undir slík plögg. Það er ekki útilokað að fólk hafi getað glatað rétti með því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina