Ólafur Ragnar svarar fyrir sig

„Auðvitað þarf forsetaembættið, eins og aðrir, að endurskoða starfhætti sína og samskipti við viðskiptalífið í ljósi þess sem hefur orðið,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Í viðauka við skýrslu rannsóknarnefndar Alþings er fjallað um náin tengsl forsetans við svokallaða útrásarvíkinga.

„Það má í sjálfu sér alveg ræða það að setja nánari reglur um samskipti forsetans við viðskiptalífið,“segir Ólafur. „En þá þarf að hafa í huga að það hefur á undanförnum áratugum orðið eðlilegur verkþáttur hjá öllum þjóðhöfðingjum á Vesturlöndum að sinna atvinnulífinu ásamt menningu og vísindastarfi.“

Aðspurður segist Ólafur Ragnar ekki líta svo á að útrásarvíkingarnir hafi haft of greiðan aðgang að Bessastöðum og forsetaembættinu. „Mér hefur alltaf fundist að það sé mikilvægt að forsetinn styðji við helstu þætti í atvinnulífinu, eins og fyrirrennarar mínir reyndar gerðu, t.d. í tengslum við sjávarútveginn, útflutningsfyrirtækin og Flugleiðir.“

Lengri útgáfa af viðtali við Ólaf Ragnar birtist í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is