Aska nær ekki niður í byggð

Gosaska lagðist yfir bæi undir Eyjafjöllum.
Gosaska lagðist yfir bæi undir Eyjafjöllum. mbl.is/Golli

Að sögn almannavarna hefur gosvirkni verið minni í dag en áður.  Gosmökkurinn fer lægra, minni öskumyndun og litlar fréttir af öskufalli.  Mökkur er bæði yfir Mýrdals- og Eyjafjallajökli en aska nær ekki niður í byggð.

Öll nauðsynleg starfsemi hefur gengið eðlilega í dag.  Engar truflanir hafa verið á dreifingu raforku og neysluvatn reynist í lagi.  Fjarskipti hafa gengið eðlilega.  Engar fréttir hafa borist af skorti á nauðsynjum.

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra kynnti sér aðstæður undir Eyjafjallajökli í dag og fundaði hún með almannavörnum á Hellu þar sem farið var yfir stöðu mála. 

Upplýsingar frá Veðurstofu:  Vestlæg átt í kvöld og líkur á öskufalli í Mýrdal, á Mýrdalssandi, í Skaftártungum og Meðallandi. Norðanátt í nótt og á morgun, hætt við öskufalli frá A-Eyjafjöllum og jafnvel vestur fyrir Vestmannaeyjar um tíma.

Skv. upplýsingum frá RKÍ hefur verið ákveðið að halda íbúafundi á 4 – 6 stöðum á morgun, þar sem íbúar verða upplýstir um stöðu mála.  Íbúafundur á Heimalandi í dag var árangursríkur.
mbl.is