Mikið öskufjúk við Eyjafjallajökul

Mjög mikið öskufjúk var víða í nágrenni Eyjafjallajökuls í gær. Verst var ástandið undir Eyjafjöllum og þar var skyggni stundum innan við 100 metrar. Sólarhringsmeðaltal svifryks var 1118 míkrógrömm í rúmmetra sem er langt yfir heilsuverndarmörkum. Þau eru 50 míkrógrömm í rúmmetra.

Umhverfisstofnun segir, að bregðast þurfi við öskufjúkinu á svipaðan hátt  og um beint öskufall sé að ræða. Þannig ætti fólk ekki að vera úti að óþörfu en þeir sem nauðsynlega þurfa að stunda vinnu utandyra noti rykgrímur. Aðrir sem eru á ferð utandyra ættu að forðast alla óþarfa áreynslu, t.d. er ekki æskilegt að stunda neinar íþróttir utandyra meðan öskufjúk er mikið.

Í dag kemur til starfa hópur fólks sem ráðinn hefur verið sérstaklega til að vinna að hreinsunarstörfum á öskufalssvæðinu. Þá eru slökkviliðsmenn af höfuðborgarsvæðinu við hreinsunarstörf á öskufalssvæðinu.

Öskulög á Eyjafjallajökli hafa verið könnuð síðustu daga og verður því verki haldið áfram í dag. Öskulögin eru víða fleiri tugir sentimetra á þykkt og neðarlega í öskulagabunkanum er veikt lag sem efri lög geta runnið ofaná. Hætta er á að slíkar skriður eða flóð fari af stað í miklum rigningum en einnig er mikil hætta á að slík flóð fari af stað við það eitt að ferðast sé um þau. Takmörkuð hætta stafar af þessum flóðum í byggð.

mbl.is