Grunur um að sjóðir Glitnis hafi verið misnotaðir

Rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málefnum Glitnis banka beinist meðal annars að því hvort sjóðir Glitnis hafi keypt og selt óskráð verðbréf sín á milli fyrir tugi milljarða króna. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins.

Þá snýst rannsóknin m.a. um samning um kaup Glitnis á verðlausu skuldabréfi af Sögu Capital fjárfestingarbanka á rúman milljarð króna eftir bankahrun. Forstjóri Sögu fjárfestingarbanka hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsókninni. 

Að sögn Útvarpsins leikur grunur á að Jón Ásgeir Jóhannesson og félagar hans hafi árin fyrir hrun misnotað aðstöðu sína og meðal annars notað sjóði Glitnis til að selja og kaupa illseljanleg eða óskráð bréf sín á milli.

M.a. hafi  Sjóður 9 hjá Glitni selt víxlaútgáfuna BAUG 08 í heild sinni í desember 2007 til fjárfestingasjóðsins GLB FX að nafnvirði rúmar 4 milljarðar króna. Sjóður 9 keypti svo aftur stærstan hluta útgáfunnar eftir áramótin. Þegar víxillinn kom á gjalddaga í mars var skuldin framlengd með kaupum á þremur nýjum víxlum í Baugi.

Frétt uppfærð: 

Útvarpið tók síðar í dag fram á vef sínum, að skilja hefði mátt á fréttinni í hádeginu  að Sjóður 9 tengdist þeirri rannsókn sem nú sé í gangi hjá embætti sérstaks saksóknara. Svo væri hins vegar ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert