Krefur PwC um bætur

Ekki er enn ljóst hversu háa kröfu gamli Landsbankinn (GLI) mun gera á hendur endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers, en bankinn telur að fyrirtækið hafi sýnt af sér vanrækslu við endurskoðun á reikningsskilum vegna ársins 2007 og vegna áritunar árshlutareikninga árið 2008.

GLI hefur tilkynnt PwC að bankinn ætli að höfða skaðabótamál gegn fyrirtækinu. Ekki kemur fram í bréfinu hversu háar kröfur bankinn ætlar að gera. PwC fékk 14 daga til að koma með andmæli gegn kröfunni. GLI telur að eiginfjárhlutfall bankans hefði verið rangt skráð. Jafnvel er talið að eiginfjárhlutfall bankans verið komið langt niður fyrir lögbundin mörk löngu áður en bankinn féll.

PwC hefur vísað ásökunum bankans á bug. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að hlutverk PwC sem endurskoðanda bankans hafi verið að láta í té álit á ársreikningum og ályktanir um árshlutauppgjör. „Í því fólst umsögn um það hvort reikningsskilin, sem unnin voru og lögð fram á ábyrgð stjórnenda bankans, hafi verið í samræmi við lög og alþjóðlegar reikningsskilareglur. Niðurstöður PwC tóku mið af þeim upplýsingum sem endurskoðendur PwC höfðu aðgang að á þeim tíma þegar vinna þeirra fór fram.“

Skilanefnd og slitastjórn GLI hafa ákveðið að höfða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnendum Landsbankans á þeim grundvelli að þeir hafi bakað honum tjón sem nemur 30-35 milljörðum króna. Um er að ræða tjón sem hlaust af því að annars vegar var ekki gengið að bankatryggingu að fjárhæð 18 milljarðar sem hefði verið sett fyrir skuldum Fjárfestingafélagsins Grettis og hins vegar lánveitingum til Straums Fjárfestingabanka hf. sem fóru fram í byrjun október 2008 skömmu áður en bankinn féll.

Stjórnendurnir sem um ræðir eru Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri, Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri, og Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi bankastjóri. Þó mál hafi ekki verið höfðuð gegn fleiri stjórnendum bankans hefur slitastjórn ekki útilokað að mál verði höfðuð gegn fleirum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert