Olíuflekkur á miðjum firðinum

Goðafoss á strandstað. Myndin er af heimasíðu norsku siglingastofnunarinnar.
Goðafoss á strandstað. Myndin er af heimasíðu norsku siglingastofnunarinnar.

Sænsk eftirlitsflugvél flaug í nótt yfir svæðið þar sem Goðafoss er strandaður við Hvaler í Óslóarfirði. Fram kemur á vef norsku siglingastofnunarinnar, að lítilsháttar af olíu hafi sést á miðjum firðinum. Aftur verður flogið yfir svæðið nú í birtingu.

Í gær tókst að ná talsverðu af olíu úr sjónum. Siglingastofnunin segir, að olían hafi verið afar þykk. Nokkuð er af slíkri olíu innan flotgirðingar, sem sett var upp til að hindra að hún bærist í land og er unnið að því að ná henni upp.

Veður er gott á svæðinu, hægviðri en kalt.   

Skipstjóri Goðafoss var kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu í gær til að gera grein fyrir orsökum slyssins. Fréttavefur Aftenposten í Noregi greindi frá því í gærkvöldi að skipstjórinn hefði viðurkennt að hafa misreiknað stefnuna og farið útaf réttri leið með þeim afleiðingum að skipið tók niðri á rifi. Þá hefði hann verið einn í brúnni þegar slysið átti sér stað.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir að félagið hafi ekki fengið neinar upplýsingar um efni skýrslu skipstjórans og geti því ekki tjáð sig um rannsóknina að svo stöddu. Eimskip hafði ekki haft samband við skipstjórann eftir að frétt Aftenposten birtist, en hann var þá að hvílast.

Ekki liggur fyrir hvenær sjópróf verður haldið vegna slyssins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert