Sigríður skipuð ríkissaksóknari

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, afhenti Sigríði skipunarbréfið í dag.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, afhenti Sigríði skipunarbréfið í dag.

Innanríkisráðherra skipaði í dag Sigríði J. Friðjónsdóttur, vararíkissaksóknara, í embætti ríkissaksóknara. Sigríður tekur við embættinu af Valtý Sigurðssyni.

Sigríður var kosin saksóknari Alþingis 12. október í fyrra en hún hefur verið í leyfi frá störfum vararíkissaksóknara síðan. 

Sjö umsóknir bárust um embætti ríkissaksóknara en umsóknarfrestur rann út 28. febrúar síðastliðinn. Umsóknirnar hafa verið til meðferðar hjá hæfnisnefnd sem var ráðherra til fulltingis við undirbúning skipunar í embættið og skilaði hún rökstuddu mati á hæfni umsækjenda.

Sigríður J. Friðjónsdóttir er fædd 1961 og lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1986 og Diploma in Law frá University College London 1987.

Sigríður fékk leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi 1991. Hún var fulltrúi borgarfógetans í Reykjavík í fimm mánuði árið 1986, fulltrúi sýslumannsins á Sauðárkróki í fjögur ár 1987 til 1991, aðalfulltrúi frá 1989, fulltrúi á lögmannsstofu Eggerts B. Ólafssonar hdl. 1991 til 1993, fulltrúi hjá rannsóknarlögreglu ríkisins 1993 til 1997 og fór þar með rannsóknarstjórn tiltekinna mála. Hún flutti einnig fjölda opinberra mála fyrir héraðsdómi sem ríkissaksóknari fól rannsóknarlögreglustjóra að fara með. Sigríður var fulltrúi við embætti ríkislögreglustjóra 1997 til 1998 og hefur verið saksóknari við embætti ríkissaksóknara frá 10. ágúst 1998, þar af sem vararíkissaksóknari frá 1. september 2008. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert