Hörmulegt að þjóðin sé svo klofin

Forustumenn stjórnmálaflokkanna á fundinum í dag.
Forustumenn stjórnmálaflokkanna á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að enginn viti fyrir víst hvað gerist láti menn reyna á rétt sinn fyrir dómstólum í Icesave deilunni.

„Það er rétt að ekki hefur allri óvissu verið eytt, en valkosturinn sem við höfum er ekki sá að vera laus undan öllum skuldbindingum, það er ekki til nein skemmri skírn til lausnar á Icesave málinu,“ sagði Bjarni, á opnum fundi um Icesave málið með forystufólki stjórnmálaflokkanna sem nú fer fram í Háskóla Íslands.

Hann sagðist á fyrri stigum málsins ávallt verið tilbúinn að láta reyna á réttarstöðu Íslendinga, „vegna þess að við höfðum engi að tapa“, sagði Bjarni. Þá hafi samningsskilmálarnir ekki verið góðir, en það hafi breyst. Sem dæmi nefndi hann að nýi samningurinn feli í sér u.þ.b. 170 milljörðum minni vaxtakostnað en sá síðasti.

„En það er alveg rétt hjá þeim sem hafa efasemdir að það eitt að benda á fyrri samninginn dugir ekki til að réttlæta að styðja þennan samning, enda er það ekki minn málflutningur. Og það er heldur ekki minn málflutningur að hér verði algjör ragnarök og allt fari til fjandans á Íslandi verði málið ekki fellt. Staðan er einfaldlega þessi, að það tekur við mikil óvissa sem ég vil vera laus við, en við höfum á borðinu núna samkomulag þar sem aðilarnir deila byrðunum.“

Bjarni sagði það slæmt hversu djúpt deilan hefur markað samfélagið og enn séu margir óvissir vegna þess að allir helstu sérfræðingar sem tjái sig séu ósammála hver öðrum. „Það er hörmulegt, þar sem sótt er að okkur af erlendum aðilum, að við skulum sitja uppi með það í dag að vera jafnklofin þjóð og raun ber vitni, það er afskaplega dapurlegt.“

Bjarni sagðist telja að ástæða þessa óróa væri hvernig haldið var á málinu á fyrri stigum, mikið vantraust ríki til stjórnvalda vegna þess og ríkisstjórnin njóti ekki trausts. „Mig er farið að gruna að vantraust á ríkisstjórnina sjálfa sé það sem margir hyggist kjósa um um helgina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert