Þráinn fer hörðum orðum um Þorgerði Katrínu

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG.
Þráinn Bertelsson, þingmaður VG.

Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna, fer hörðum orðum um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Facebook-síðu sinni, sem er opin öllum. Þar segist Þráinn vera orðinn afar pirraður á Þorgerði sem hann kallar m.a. „kúlulána- og íhaldsbelju“.

Mikil umræða hefur spunnist á síðu Þráins í tengslum við færslu sem hann skrifar um sín launamál. „Ef einhver heldur að ég geti lifað á kaupinu mínu sem alþingismaður er svarið NEI? Síðan ég tók sæti á Alþingi hef ég sjálfur borgað með mér,“ skrifar Þráinn, sem er níundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis Norður.

Hann segir að svarið við því hvort hann sé á tvöföldum launum, verandi á heiðurslaunum Alþingis, sé bæði já og nei. Hann tekur fram að heiðurslaun Alþingis séu ekki laun heldur viðurkenning og bendir á að starfslaun listamanna séu tæp 300.000 en heiðurslaun Alþingis tæp 140.000.

„Það var kúlulaunadrottninginn (þúsund milljónir eða voru það níu hundruð og níutíu) Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem byrjaði á að gera það tortryggilegt að heiðurslaunalistamaður tæki sæti á Alþingi án þess að afsala sér heiðurslaunum á meðan,“ skrifar Þráinn.

„Þetta byrjaði í Silfri Egilis rétt eftir kosningar. Þá benti kúlulána- og íhaldsbeljan Þorgerður Katrín á að það eina sem ég hefði á minni sakaskrá væri að ég Alþingi Íslendinga hefði veitt mér heiðurslaun.“

Umræðan á Facebook-síðu Þráins.

mbl.is