Hakkið var of dýrt

Vegna bilunar sem kom upp í prentara fyrir verðmerkivog hjá Ferskum kjötvörum eru ákveðnar líkur á því að tilteknar vörur fyrirtækisins, með pökkunardag 23. maí sl. til og með 3. júní, hafi verið seldar í verslunum Bónus, Hagkaupa og 10-11 á röngu verði.

Eftir ábendingar viðskiptavina og verslunarstjóra hefur komið í ljós að kassakerfi verslananna las strikamerki varanna rangt og kom það þannig fram að ýmist bætist 1 kg við þyngd vörunnar eða að 1.000,- kr bættust við verð hennar. Sannreynt hefur verið að ekki er algilt að kassakerfin lesi strikamerkin vitlaust og einnig hafa verið gerðar ráðstafanir til að hindra endurtekningu á þessu.
Rangt söluverð getur eingöngu komið fram á þremur vörum Ferskra kjötvara, þ.e. Íslandsnaut ungnautahakki, Nautaveislu nautahakki eða Tilboðs hakki. Viðskiptavinir verslananna geta staðfest hvort þeir hafi keypt þessar vörur á röngu verði með því að lesa yfir kassastrimilinn.

Ferskar kjötvörur biðja viðskiptavini versalnanna innilegrar afsökunar, hafi bilunin komið fram við innkaup þeirra. Allir þeir sem hafa kassastrimil sem sýnir rangt söluverð á ofangreindum vörum munu fá mismuninn endurgreiddan í versluninni þar sem varan var keypt. Einnig má hafa samband beint við aðalskrifstofur Bónus (527-9000), Hagkaupa (563-5000) eða 10-11 (530-7900), eftir því hvar varan var keypt

mbl.is

Bloggað um fréttina