„Geir á sanngirni skilda“

mbl.is/Kristinn

Bekkurinn var þéttsetinn í Norðurljósasalnum í Hörpu klukkan fimm í dag, en þar héldu stuðningsmenn Geirs H. Haard, fyrrverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins stuðningsfund.

Meðal þeirra sem tóku til máls var pólitískur andstæðingur Geirs, Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Geir bauð viðstadda velkomna og lýsti yfir ánægju sinni með staðsetningu fundarins. Hann sagði að Harpa væri hús sem væri greinilega til margra hluta nytsamlegt, meðal annars til þess að draga þangað inn menn sem hefðu strengt þess heit að stíga aldrei inn fæti þar. Nefndi hann þar sérstaklega Pétur H. Blöndal, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

„Ég þakka ykkur fyrir að sýna mér stuðning í því óheillamáli sem hófst í landsdómi í dag,“ sagði Geir og sagðist hafa rofið mánaða langa þögn sína í gær.

Hann vék að umfjöllun ýmissa netmiðla, en sagði hana ekki skipta miklu máli. Það sem skipti máli væri að  nú væri málið tekið fyrir.

Í máli Geirs kom fram að  málið yrði hugsanlega ekki tekið fyrir fyrr en í janúar 2012. „Ekki veit ég hvað lagaspekingar segja um þetta, en mér finnst þetta ótækt.“

Geir las upp yfirlýsingu sína sem henn gaf fyrir landsdómi í dag þar sem fram kom afstaða hans til sakarefna en hann vísaði öllum ásökunum á bug.

Hann sagðist vilja láta reyna á lögmæti þess að lögum um Landsdóm var breytt. „Verði því hafnað, þá munum við láta reyna á almenna frávísun á grundvelli þes hvernig ákæruatriðin eru úr garði gerð. Við teljum að ákæruatriðin standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til ákæruatriða,“ sagði Geir.

„Auðvitað segir það sig sjálft að það er ekki í lagi í réttarríki að höfða mál á hendur manni án þess að rannsaka mál hans fyst. Ég geri ráð fyrir að það þætti ámælisvert, jafnvel í landi eins og Simbabve.“

„En ég er þannig skapi farinn að ég tek þetta ekkerr sérlega nærri mér, ég veit hverjir standa að baki þessu,“ sagði Geir.

Hann sagðist ánægður með hversu margir úr öðrum flokkum væru staddir á fundinum og hversu margir hefðu skráð nöfn sín á vefsíðuna malsvorn.is, en það væru nú þegar 3200 manns.

„Mál þetta er pólitískt í eðli sínu,“ sagði Geir. „Það hefði verið það líka ef fjórir ráðherrar, en ekki einn, hefðu verið ákærðir. Þetta á rætur í VG, þar sem ákveðið var að fara þessa leið.“

Ekki refsivert að bjarga bankakerfinu

Geir sagði að að undanförnu hefði komið í ljós að þær ákvarðanir, sem teknar voru í aðdraganda hrunsins hefðu verið réttar og komið í veg fyrir enn meiri skaða „Ég tel það ekki vera refisivert athæfi að hafa bjargað innlenda bankakerfinu.“

„Ég býst ekki við því að neinn, sem að þessu máli kemur geri það með glöðu geði,“ sagði Geir og nefndi í því sambandi dómara og saksóknara.

„Það er verið að feta nýja stigu í réttarfarinu og ef maður vill vera sanngjarn, þá má gera ráð fyrir að einhverjir misstígi sig. En sum mistök eru ófyrirgefanleg,“ sagði Geir og nefndi í því sambandi lagafrumvarp sem lagt var fram til að breyta umfjörðinni um kandsdóm.

„Við ætlum að hafa sigur í þessu máli,“ sagði Geir og bætti því við að hann fyndi mikinn stuðning víða að.

Lögfræðimenntaðir hljóta að blygðast sín

Kristrún Heimisdóttir, sem er aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra og fyrrum aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, ávarpaði fundarmenn. Hún fagnaði því hversu hópurinn var fjölbreyttur, þar væru bæði samherjar hennar og mótherjar úr stjórnmálum.

Kristrún sagði að ein af ástæðum þess að hún lagði Geir lið væri að íslenskt réttarkerfi stæði nú frammi fyrir stóru verkefni.

Hún sagði réttarkerfið ævinlega hafa komið fyrst og staðið æðst. En sagðist leyfa sér að fullyrða að engin siðmenntuð mannseskja með einhverja lögfræðimenntun gæti horft á þetta mál án þess að blygðast sín

„Ég er viss um að dómarararnir lesa hættumerkin í málinu,“ sagði Kristrún.

„Af óskiljanlegum ástæðum var margvíslegur áburður og uppspuni tekinn gildur af höfundum rannsóknarskýrslu Alþingi,“ sagði Kristrún og benti á að ýmsir aðrir hafi fengið þann rétt að fá rannsókn á sínum málum. En fyrrverandi forsætisráðherra hefði ekki fengið þann rétt.

„Reifun málsins er í skötulíki og alþingismenn sáu það ekki sem sitt hlutverk að skilja málið, þeir tóku sér hlutverk ákæranda,“ sagði Kristrún. „Þetta er mesti heigilsháttur sem ég hef orðið vitni að.“

Var í hinu liðinu

Kristrún sagði að þeir fjölmiðlar, sem segðu Geir hafa framið lögbrot, segðu  ekki satt. „Það er vegna þess að lög um ráðherraábyrgð skilgreina ekki neitt sérstakt afbrot. “

Hún sagði að þeir sem véluðu um málið vissu einfaldlega ekki hvað bankakreppa væri og forsætisráðherra hefði aldrei verið dreginn til ábyrgðar fyrir dómi vegna þessa, einn og óstuddur

„Vann hann ekki stærsta kosningasigur Sjálfstæðisflokksins árið 2007? Ég ætti að vita það, ég var í hinu liðinu,“ sagði Kristrún.

„Mig langar til að lýsa því hér í þessum sal, þá varð ég vitni að yfirvegun og æðruleysi eins manns, sem fyrir þann sterka mátt örlaganna sem við ráðum ekki við, sem valdist úr hópi Íslendinga til að taka flest spjótalögin og sverðshöggin. Ég held að Íslendingar séu almennt þeirrar skoðunar að Geir H. Haarde eigi sanngirni skilda.“

Kristrún sagði að enginn forystumaður í íslenskum stjórnmálum hefði þurft að standa í annarri eins orrahríð og Geir.

Hún lagði ennfremur áherslu á að komið hefði í ljós að setning neyðarlaganna hefði verið rétt. Hún spurði hver glæpur Geirs væri, varla dytti nokkrum í hug að dæma hann til refsingar vegna setningar neyðarlaganna. Réttarhöldin myndi engu nýju ljósi varpa á hvaða aðra valkosti íslensk stjórnvöld höfðu.


Geir H. Haarde tekur á móti fólki í Hörpu í …
Geir H. Haarde tekur á móti fólki í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina