Enn er barist við eldinn

Eldsvoðinn í Hringrás í nótt.
Eldsvoðinn í Hringrás í nótt. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins berst enn við eldinn sem kom upp í dekkjum hjá fyrirtækinu Hringrás við Klettagarða í Reykjavík á þriðja tímanum í nótt. Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu er á staðnum eða um 60 manns samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.

Að sögn Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra, hefur nú dregið verulega úr eldinum og slökkviliðið er að ná tökum á honum. Eldurinn sé þó enn töluverður og eins reykurinn. 

„Það er ekki eins mikill kraftur í þessu núna þannig að reykurinn stígur ekki eins mikið og hann gerði í nótt. Þetta er orðið kaldara. Það er verið að taka úrdekkjahaugnum og kurlinu sem logar í og dreifa aðeins úr því og slökkva í því. Síðan erum við komnir núna með dælubíl af Reykjavíkurflugvelli með vatnsbyssu ofan á toppnum og erum að fara að nota hann,“ segir Jón Viðar.

Vindáttin er enn hagstæð og liggur á haf úr frá byggðinni en Jón segir að hún virðist þó vera aðeins að snúast. Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands eigi hún ekki að snúast upp í byggðina.

Hann segir að ekki sé búist við því að rýma þurfi hús í nágrenninu eins og gert var þegar síðast kviknaði í hjá Hringrás árið 2004, en þá sneri vindáttin að byggðinni. Varúðarráðstafanir hafi engu að síður verið gerðar ef þess þurfi og séu bæði lögreglan, Rauði krossinn og Strætó reiðubúin að framkvæma rýmingu ef á þarf að halda.

Jón Viðar áréttaði þó að ekki væri búist við að á það reyndi.

Samkvæmt tilkynningu Almannavarna hefur aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins verið kölluð saman í Samhæfingarstöðina vegna eldsvoðans en ekki hefur þó verið lýst yfir almannavarnaástandi. Starfsmenn stöðvarinnar eru þó í viðbragðsstöðu.

Eldur logar við Hringrás

mbl.is