Fengu ekki nægilega þjónustu

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.
Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express. mbl.is/Jón Pétur

Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Iceland Express, segir að erfiðlega hafi gengið að finna nýja þotu til að flytja farþega heim frá París í fyrrakvöld í stað þotu Iceland Express sem bilaði.

Vélin átti að leggja af stað klukkan 14:40 á föstudag en farþegar komu ekki til Ísland fyrr en klukkan eitt, aðfararnótt sunnudags.

„Þetta er háannatími og það gekk illa að finna nýja þotu í staðinn. Við fengum að lokum vél frá AirFinland.“ 

Hann segir jafnframt að starfsmenn Iceland Express séu slegnir yfir því hversu erfiðlega gekk að fá nýja þotu. „Við erum einnig ósátt við þá þjónustu sem farþegar okkar fengu í París. Við munum fara yfir það með þjónustufyrirtæki okkar í París og tryggja að þjónustan verði betri í framtíðinni.“

Farþegar, sem Morgunblaðið náði tali af í gær, sögðu meðal annars frá því er þeir voru fluttir á hótel í grennd við flugvöllinn og þurftu margir að gista í herbergjum, jafnvel uppi í rúmi, með fólki sem það hafði ekki hitt áður. 

„Við fengum þau skilaboð frá okkar þjónustuaðila að allir gestir væru komnir á hótel. Það var ekki fyrr en daginn eftir sem við heyrðum að það hefðu verið of fá herbergi. Það er auðvitað algjörlega óboðlegt. Við sendum kvartanir okkar til þjónustuaðila okkar. Þetta er óásættanlegt.“

Matthías segir jafnframt að hann ætli sér að hitta farþega og grafast fyrir um hvers vegna upplýsingar hafi ekki borist þeim með smáskilaboðum og tölvupóstum. „Þetta virðist hafa farið úr okkar kerfi en ef upplýsingar hafa ekki borist þá er það auðvitað alveg afleitt. Við báðum jafnframt samstarfsaðila okkar í París um að tryggja gott upplýsingaflæði til farþega en það virðist ekki hafa verið nægilega gott.“

„Við þurfum núna að fara yfir okkar ferla og tryggja að þjónustan verði betri í framtíðinni.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert