Gagnrýnir mismun á greiðslum

Berglind gagnrýnir mismun á greiðslum með leikskólabörnum.
Berglind gagnrýnir mismun á greiðslum með leikskólabörnum.

Sá munur sem er á greiðslum Reykjavíkurborgar til einkaleikskóla annars vegar og dagforeldra hins vegar er líklega brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þetta segir Berglind María Kristinsdóttir, foreldri tveggja barna á leikskólaaldri, sem hefur ritað Oddnýju Sturludóttur, formanni menntaráðs borgarinnar, opið bréf.

Berglind á barn sem fætt er árið 2010 og ætti undir venjulegum kringumstæðum að fara á leikskóla nú í haust. Hins vegar, vegna þess hversu stór árgangurinn á undan er, segir Berglind að Reykjavíkurborg hafi tekið 2010-börnin út af fjárhagsáætlun.

„Þessi árgangur er bara látinn bíða þar til næsta haust og á að nýta dagforeldra og einkarekna leikskóla. Þetta hefur það í för með sér að útgjöld fjölskyldna hækka um tæplega 400 þúsund krónur yfir árið,“ segir Berglind.

Fyrir átti Berglind annað barn á leikskólaaldri og hafði gert ráð fyrir að koma hinu á leikskóla nú í haust. Í staðinn fyrir að greiða um það bil 35 þúsund krónur á mánuði fyrir dagvistun fyrir tvö börn sér hún nú fram á að þurfa að borga um 71 þúsund krónur. Eftir árið muni hún því hafa greitt um hálfri milljón meira en hún hafði gert ráð fyrir.

Hún gagnrýnir þann mikla mun sem er á greiðslum borgarinnar vegna einkarekinna leikskóla annars vegar og dagforeldra hins vegar. Þegar börn verði 18 mánaða hækki þessar greiðslur mikið. Á einkareknum leikskóla eru þær 145.980 krónur á barn en dagforeldrar fá 37.000 krónur. Mismunurinn er því 108.980 krónur. 

Ástandið svart

„Í raun og veru er það sem ég fer fram á við borgina að setja sömu reglur fyrir dagforeldra og einkareknu leikskólana og að greiðslur hækki líka til þeirra. Staðan er ansi svört fyrir foreldra í dag. Við viljum meina að þetta sé brot á stjórnarskrá og jafnræðisreglu, þessi munur á greiðslum. Jafnræðis er ekki gætt í þessum málum,“ segir Berglind.

Opið bréf Berglindar til borgaryfirvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina