Ekki gott að setja umsókn á ís

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki góður kostur fyrir neinn að setja málið á ís núna,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á fundi sem Heimsýn og Herjan, félag stúdenta gegn ESB-aðild stóð fyrir í Háskóla Íslands í dag. Yfirskrift fundarins var: Er skynsamlegt að leggja aðildarumsókn Íslands að ESB til hliðar?

„Eitt er víst að þessi spurning yfirgefur okkur og við þurfum að fá botn í það fyrr en síðar hvernig framtíðartengslum okkar við Evrópu verður háttað,“ sagði Steingrímur.

„Það er ekki góður kostur fyrir neinn að setja málið á ís núna. Ég tel augljóslega að það sé ekki góður kostur fyrir þá sem telja skynsamlegt að við göngum inn í Evrópusambandið. Ég held að það sé ekki heldur góður kostur fyrir okkur hin sem teljum að það þjóni ekki hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið. Og það er augljóslega ekki góður kostur fyrir þann stóra hóp, sem við skulum ekki tala framhjá í þessari umræðu, sem vill skýra þetta mál og vill taka afstöðu til þess á grundvelli vitrænna upplýsinga. Þessi hópur er stór sem er ekki endilega með uppgerðan hug í þessum efnum, en  telur sig eiga heimtingu á því að hafa einhvern efnislegan grundvöll til þess að taka afstöðu til málsins. Það þarf fyrr eða síðar að gera það.“

Steingrímur sagði að ef ætti að hætta þessum viðræðum núna værum við litlu nær. Gerður hefði verið samanburður á löggjöf Íslands og ESB, þar sem fátt kæmi á óvart. „Það hefur ekki reynt enn á neinar af þeim eiginlegu grundvallarhagsmunum sem menn eru sammála um að varði Ísland mestu. Með öðrum orðum: Við værum sáralitlu nær og þrætan héldi áfram.“

Steingrímur sagði ekki útilokað að það slitnaði upp úr viðræðum við ESB vegna ágreinings um grundvallarmál. Önnur niðurstaða væri að menn kláruðu viðræður og þjóðin greiddi síðan atkvæði um samninginn. Steingrímur sagði að þróun mála í Evrópusambandinu skipti vissulega máli varðandi framtíð viðræðna. „Að sjálfsögðu getur enginn afsalað sér réttinum til að endurmeta stöðuna ef Evrópusambandið er allt að fara á hliðina, sem ég vona nú að verði ekki. Það hjálpar ekki neinum ef þar fer allt í vitleysu þó að maður fái stundum á tilfinningu hér heima að menn fyllist mikilli Þórðargleði yfir öllum erfiðleikum sem Evrópa glímir við, allt frá stöðu Grikklands og norður úr. Það finnst mér ekki geðlegum málflutningur.

Ísland þarf að skýra það til frambúðar hvernig tengslum við þetta langstærsta og mikilvægast viðskiptasvæði okkar verður. Það er ekki gott fyrir okkur út frá okkar þjóðarhagsmunum til langs tíma litið, að hafa þetta alltaf í höndunum og rífast um þetta endalaust. Ég hef mikinn áhuga á að við leiðum þetta til efnislegrar niðurstöðu sem markar stefnuna fyrir okkur dálítið inn í tímann.

Ég tel sjálfur sáralitlar líkur á að þjóðin sé að fara að samþykkja það að fara inn í Evrópusambandið og átta mig þess vegna ekki á því af hverju við ættum að vera svona hrædd sem deilum þeirri skoðun,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert