Skýrsla úrbótanefndar kynnt um helgina

Frá kirkjuþingi í sumar
Frá kirkjuþingi í sumar mbl.is/Sigurgeir

Úrbótanefnd sem sem kirkjuþing skipaði í júní 2011 til að vinna úr tillögum sem fram koma í rannsóknarskýrslu kirkjuþings skilar áfangaskýrslu á kirkjuþingi um helgina.

Kirkjuþing hefst í Grensáskirkju, laugardaginn 12. nóvember, með setningarathöfn kl. 9.00. Fyrir þinginu liggja 36 mál.

Meðal mála má nefna tillögu til þingsályktunar um frumvarp til þjóðkirkjulaga þar sem gert er ráð fyrir talsverðum breytingum á núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir því að milliþinganefnd hafi frumvarpið áfram til meðferðar og skili endanlegum tillögum á kirkjuþingi 2012.

Fyrir þinginu liggur einnig skýrsla úrbótanefndar sem kirkjuþing skipaði í júní 2011 til að vinna úr tillögum sem fram koma í rannsóknarskýrslu kirkjuþings. Nefndin hefur starfað að því að móta tillögur um fyrirmyndarvinnubrögð. Hún mun skila áfangaskýrslu núna með tillögum um það hvað unnt sé að gera nú þegar, en óskar eftir ári til viðbótar til að móta frekari tillögur.

Þá liggur fyrir þinginu tillaga að fasteignastefnu Þjóðkirkjunnar þar sem meðal annars eru settar fram hugmyndir um að prestssetur séu aðeins þar sem sóknarbörn eru 1500 eða færri í prestakalli.

Kirkjuráð leggur einnig fram tillögu að nýjum starfsreglum um biskupskjör þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að djáknar hafi kosningarétt og að hlutur leikmanna í kosningum verði stóraukinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert