Sleppi lifandi lúðu

Grálúðuhvítingi.
Grálúðuhvítingi.

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur skrifað undir reglugerð um bann við lúðuveiðum. Áður höfðu beinar lúðuveiðar með haukalóð verið bannaðar með reglugerð sem gefin var út síðastliðið vor. Með almennu banni á lúðuveiðum eru sjómenn skyldaðir til að sleppa í sjóinn aftur lífvænlegri lúðu.

Aflaverðmæti þeirrar lúðu sem kemur að landi rennur þá til rannsókna samkvæmt ákvæðum laga. Líkt og bann við veiðum með haukalóð tekur bann við almennum lúðuveiðum gildi um áramót.

Slæmt ástand stofnsins

Í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu segir að lúðustofninum hafi hrakað.

„Friðun lúðunnar er tilkomin vegna tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar sem hefur um langt árabil bent á slæmt ástand stofnsins. Gögn stofnunarinnar benda til að lúðustofninn hafi um langt skeið farið minnkandi. Heildarlúðuafli á Íslandsmiðum fór upp í allt að 8.000 tonnum í byrjun 20. aldar en veiðin var þá nær eingöngu stunduð af erlendum skipum.

Fyrstu árin eftir stækkun efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur var lúðuaflinn að jafnaði um 2.000 tonn en hefur farið minnkandi og var árið 1997 kominn niður í rúm 500 tonn. Lúðuveiðar hafa aukist lítillega á allra síðustu árum vegna aukinnar sóknar í stofninn með línuveiðum. Þar er annars vegar um að ræða aukna sókn í línuveiðar á blálöngu og löngu þar sem lúða kemur sem meðafli og hins vegar beina sókn í lúðu með haukalóð. Að öðru leyti hefur lúðuafli farið minnkandi sem meðafli.“

Getur orðið á fimmta metra á lengd

Einnig er vikið að sérstöðu lúðunnar á Íslandsmiðum.

„Lúðan er stærsti beinfiskur á Íslandsmiðum og getur stærst orðið á fimmta metra að lengd. Hún er botnfiskur sem þvælist þó um allan sjó. Lúða nær kynþroska við 8-10 ára aldur, en hún getur orðið allt að 50 ára gömul.“

mbl.is

Bloggað um fréttina