Þörf á samtökum skattborgara?

Vilhjálmur Bjarnason flutti erindi á skattadeginum í morgun.
Vilhjálmur Bjarnason flutti erindi á skattadeginum í morgun. mbl.is/Sigurgeir

„Er ekki kominn tími til að stofna samtök skattborgara?“ Þessari spurningu varpaði Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, fram á Skattadegi Deloitte í morgun.

Vilhjálmur fjallaði um ávöxtun á sparnað. Hann sagði að allir óverðtryggðir reikningar væru með neikvæðri ávöxtun í dag og ávöxtun á verðtryggða reikninga væri lítil.

Vilhjálmur gagnrýndi sérstaklega álagningu auðlegðarskatts. Hann sagði að menn þyrftu að velta fyrir sér hvort auðlegðarskattur fæli ekki í raun í sér eignarnám. Einhvers staðar lægju mörk skattlagningar og eignarnáms og hann sagði ástæðu til að svara þeirri spurningu hvort auðlegðarskatturinn ætti ekki meira skylt við eignarnám en skattlagningu.

Vilhjálmur sagði að stjórnlagadómstóll í Þýskalandi hefði fengist við þessa spurningu fyrir nokkrum árum og hann hefði talið verulegan vafa leika á að skattur af þessu tagi samrýmdist stjórnarskrá. Þess vegna hefði verið hætt við hann.

Vilhjálmur sagðist aðeins vita um tvö lönd í heiminum sem legði á auðlegðarskatt fyrir utan Ísland, en það væru Frakkland og Noregur.

mbl.is

Bloggað um fréttina